140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[13:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Augljóslega á ég ekki einfalt svar við þessari spurningu. Fyrst vil ég taka undir með ráðherranum hvað varðar mikilvægi þess samstarfs sem við eigum í við hinar Norðurlandaþjóðirnar á sviði menningar og mennta. Það er alveg hárrétt sem bent er hér á að menningarþátturinn er ekki bara mikilvægur einn og sér og í sjálfu sér, heldur líka sem útflutningsvara sem viðskiptatækifæri fyrir Íslendinga. Ég held að sú áhersla sem hefur verið hjá Norðurlandaráði á undanförnum missirum og árum hvað þann þátt varðar sé mjög vel heppnuð. Ég er sannfærður um að ekki þarf mikið til að koma til að auka áhuga íslenskra fyrirtækja á þessum möguleikum sem þarna eru vissulega til staðar og réttilega bent hér á til dæmis í tölvuleikjaiðnaðinum.

En enn og aftur að þeim þætti málsins sem ég tel að skipti svo miklu máli sem er að þetta sé grundvallað á þessum sameiginlega skilningi, á þessum sameiginlega menningararfi sem við nýtum okkur bæði til að auka viðskipti en líka sem grundvöll viðskiptanna. Ástæðan fyrir því að hægt er að hafa þetta mikla samstarf Norðurlandanna er þessi menningarlegi og sögulegi bakgrunnur. Öðruvísi væri þetta tómt mál um að tala.

Hvað varðar möguleika eða hvaða aðferð við höfum til að auka þátttöku atvinnulífsins í þessu og hvaða aðgerðir stjórnvöld geta gripið til, held ég að færi vel á því einmitt að við mundum velta því fyrir okkur á vettvangi Íslandsdeildarinnar hvort ekki sé ástæða til þess að með beinum hætti væri reynt að hafa aukið samstarf við til dæmis Samtök atvinnulífsins um kynningu á þessum þáttum, á þessum málum, á þeim möguleikum og því samstarfi sem vissulega stendur okkur til boða.

Ég er algjörlega þeirrar skoðunar, frú forseti, að við Íslendingar höfum á svo margan hátt grætt miklu meira á því að taka þátt í Norðurlandasamstarfinu en það hafi kostað okkur. (Forseti hringir.) Ég tel þess vegna að við eigum að auka það samstarf og dýpka eins og mögulegt er.