140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við hv. þingmenn höfum svarið eið að stjórnarskránni og við eigum að standa við það að hún sé haldin. Ég man þá tíð þegar Hæstiréttur felldi öryrkjadóminn og kvótadóminn. Þá var rokið upp til handa og fóta, bæði hjá ríkisstjórn og stjórnarflokkunum, um að laga það sem Hæstiréttur sagði að stangaðist á við stjórnarskrá og það var gert eins hratt og hægt var.

Núna virðist þetta bara vera orðin lenska. Ég bið um að þingmenn taki stjórnarskrána alvarlega, að hæstv. ríkisstjórn taki stjórnarskrána alvarlega og ef það kemur í ljós að einhver lög, hvort sem það eru nýlega sett lög um Stjórnarráðið eða eitthvað annað, stangast á við stjórnarskrá eiga menn að laga það eins og skot þannig að það stangist ekki lengur á við stjórnarskrá, því þá geta menn ekki vísað í eitthvað eldra eða gamalt.

Þetta er atriði sem við eigum að hafa í heiðri og ég held að til lítils sé að setja nýja stjórnarskrá ef menn ætla ekki að fara eftir stjórnarskrám yfirleitt.