140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég vil biðja forseta um að sjá til þess að hæstv. forsætisráðherra komi hingað og skýri orð sín því að það kann vel að vera að hægt sé að finna lagalegar skýringar á því að fyrirkomulag sé með þessum hætti eins og hv. þingmenn hafa hér ágætlega bent á. En það breytir því ekki að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að með tillögunni sem ráðherrann setur fram sé forsætisráðherra að fara gegn stjórnarskránni. Það var sú yfirlýsing sem hér var flutt.

Við hljótum því að spyrja: Hvers virði er sá eiður sem þingmenn skrifa undir varðandi stjórnarskrána? Við hljótum að spyrja okkur að því. Við hljótum líka að spyrja hvort það hafi verið að ástæðulausu að forsætisráðuneytið var sérstaklega styrkt lagalega, þ.e. sú deild eða hvað á að kalla það í því ráðuneyti var sérstaklega styrkt til þess að leggja fram vandaðri mál. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra sé, eins og kannski mátti skilja hér, að misskilja hlutina eitthvað þegar ráðherrann orðaði þetta á þennan hátt. (Forseti hringir.) En ekki er hægt að líta fram hjá því að hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta væri gegn stjórnarskránni og það er mjög óeðlilegt að slíkur ráðherra sitji eins og ekkert hafi í skorist.