140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hv. þingmann afsökunar á því ef ég misskildi spurningarnar hennar áðan, ég hélt að hún væri að bregðast við ræðu minni. Ég skal reyna að svara þeim á almennari hátt og vísa ekki til þeirra kosta sem ríkisstjórnarflokkarnir færðu til.

Aðferðafræðin hjá verkefnisstjórninni liggur öll fyrir og hún var ítarleg. Safnað var saman öllum gögnum og reynt að svara öllum þeim spurningum sem mögulega gætu komið upp varðandi þessa virkjunarkosti. Jafnframt var auðvelt og gott, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að koma að athugasemdum og ábendingum um það hvaða frekari gögn þyrfti. Það er enginn lögfullur vafi varðandi einhver atriði, ekkert liggur óskýrt fyrir að mínu mati varðandi þá kosti sem hv. þingmaður talaði um og sem hér er verið að færa til. Að mínu mati er enginn slíkur vafi. Um þá kosti sem verkefnisstjórn mat sem svo að skorti frekari gögn um er rætt í skýrslu verkefnisstjórnar. Þar er sagt að skort hafi frekari gögn og þess vegna hafi ekki verið hægt að meta kostina að fullu og þar af leiðandi hafi þeir kostir fengið þá röðun sem verkefnisstjórnin komst á endanum að niðurstöðu um. Þannig er búið um hnútana og það er ekki hægt að reyna að segja að færa þurfi einhverja kosti í biðflokk vegna þess að það sé eitthvað í þeim kostum sem verkefnisstjórn hafi ekki dottið í hug að skoða. Ekkert liggur fyrir um það.