140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurninguna, um hvort efast megi um faglega skoðun og mat þeirra stofnana sem skiluðu áliti og gögnum sem verkefnisstjórnin byggði sína röðun á, er það mín skoðun að þessi gögn séu traust. Ég vil byggja á þeim, mun gera það og hef gert það.

Ef einhver fettir fingur út í þau gögn og segir þau ekki marktæk getur það auðvitað farið í báðar áttir, það segir sig sjálft. En ég lít svo á að þetta séu þær stofnanir sem við höfum falið ákveðin verkefni, að hafa rannsóknir með höndum og skoðanir á því hvernig með skuli fara, og þess vegna tel ég að ekki sé á betri gögnum að byggja. Auðvitað er hægt að rannsaka alla hluti endalaust og sú aðferðafræði er oft notuð, að setja málin í nefnd eða vísa til frekari rannsókna til þess að tefja hlutina og reyna að kaupa sér einhvern tíma. En í þessu máli var einfaldlega tekin ákvörðun á hinu pólitíska sviði sem hefur gengið í gegnum ríkisstjórnir margra flokka og þannig reynt að finna lausn. Eins og ég sagði áðan verða menn að reyna að stramma sig í að horfa heildstætt yfir myndina og fram hjá sínum eigin pólitísku hagsmunum. Annars erum við að eyðileggja þetta mál, alla þessa miklu vinnu og alla þessa miklu fjármuni sem hafa verið lagðir í verkefnið. Það er alvarlegur hlutur og þá völdum við á Alþingi enn og aftur þjóðinni miklum vonbrigðum. Þá getum við ekki einu sinni staðið við okkar eigin orð um að leita sátta og fara að faglegri niðurstöðu.

Það eru ekki hagsmunir náttúrunnar að hér komist á það ástand að um leið og skipt er um ríkisstjórn sé skipt um rammaáætlun. Það eru ekki hagsmunir náttúrunnar.