140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við erum nokkuð sammála um að þegar menn leggja í vegferð eins og þessa, að fara í faglega vinnu og taka þetta út úr hinu pólitíska argaþrasi eins og hv. þingmaður kom að í sinni ræðu, verðum við að standa við það þegar niðurstaðan liggur fyrir en ekki hlaupa út undan okkur í hvora áttina sem það er. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir það í ræðu sinni áðan hvernig staðið var að því að gera þessa hluti. Þá hlýtur það líka að vera krafa, hvort heldur sem menn vilja virkja meira eða minna eða setja meira í ákveðna flokka umfram aðra, að menn standi við það þannig að við náum að taka akkúrat þetta mikilvæga mál og hafa það þá eins og upphaflega markmiðið var, að halda því fyrir utan hið pólitíska argaþras.

Mig langar að ítreka seinni spurninguna til hv. þingmanns vegna þess að hv. þingmaður hafði ekki tíma til að svara henni. Hún var um það hvort það teldust eðlileg vinnubrögð eftir alla þá faglegu vinnu sem fram hefur farið, og búið að skila tillögunni til stjórnvalda, að fara að mínu mati í hrossakaup á milli stjórnarflokkanna. Við vitum alveg hvert markmið stjórnarflokkanna er. Það er bara að reyna að halda völdum og það er stjórnað frá degi til dags. Getur hv. þingmaður tekið undir þá gagnrýni mína og efasemdir? Tillagan eins og hún kom út úr þessari faglegu vinnu hefði átt að koma óbreytt inn í þingið og ef það hefðu komið fram einhverjar ábendingar eins og látið er liggja að hér má spyrja hvers vegna menn færa úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Þá hefði þingið átt að takast á við það en ekki taka þessa breytingu áður í gegnum framkvæmdarvaldið. Auðvitað lyktar það illa og maður hefur heyrt suma hv. þingmenn tala fyrir því að nú yrði að fara að gera eitthvað. Nú eru þeir farnir að tala í öðrum tón og segja: Allir verða að slá eitthvað af og svoleiðis. Auðvitað hefði afgreiðslan í þinginu (Forseti hringir.) átt að vera betri.