140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál er þannig vaxið að það tók allt of langan tíma að setja rammann utan um það hvernig málið kæmi inn í þingið. Það er ekki fyrr en með lögum nr. 48/2011 sem það liggur fyrir að það verði flokkað í þessa þrjá flokka. Það er ekki verkefnisstjórnin sem gerir það, hún gefur bara röðina um hvaða kostur er vænlegastur til nýtingar og hvaða kostur er vænlegastur til verndar. Svo raðast allir kostirnir þar á milli. Verkefnisstjórnin skilaði ekki af sér þessum flokkum.

Hins vegar varð málið að komast inn í þingið og það er búið að taka umræðu um það hvort það hefði átt að vera verkefnisstjórnarinnar eða einhverra annarra að skipa þessu í flokka. Röðunin liggur samt fyrir, hún er alveg klár frá verkefnisstjórninni og að mínu viti ætti sú þingsályktunartillaga sem hér kemur fram að byggja á henni að öllu leyti. Vissulega er vísað til þess að það sé byggt á henni og það er alveg rétt. Í nokkrum atriðum er hins vegar vikið frá og þess vegna þarf að rökstyðja það mjög ítarlega, eins og ég sagði áðan.

Það er alveg rétt athugað hjá hv. þingmanni að kannski var ekki rétt að láta umsagnarferlið fara af stað í gegnum ráðuneytin, það má alveg deila um það. Sú umræða er bara of seint fram komin en þingið á eftir að fara yfir þetta og getur, að mínu viti, lagfært þessa tillögu. Það mun vonandi gera það þannig að við getum haldið okkur við hið upphaflega verkefni og upphaflega markmið að reyna að ná og skapa með þessu sátt með öllum þeim sem hafa skoðun á þessum málum, þ.e. verndinni og nýtingunni.