140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í ræðu hans og vangaveltur. Mig langar að spyrja hvenær við getum farið að horfa fram á við og nýta orkuna frekar en við gerum í dag.

Samtök atvinnulífsins héldu fund um daginn undir yfirskriftinni Uppfærum Ísland. Þau gáfu út ágætisrit og horft var til ýmissa þátta í því hvernig við getum komið okkur fram á við í atvinnulegu tilliti og efnahagslegu. Þar á meðal er kafli sem heitir Land iðnaðar og orkunýtingar og er það ágætiskafli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef við viljum uppfæra Ísland man hv. þingmaður þá hvenær næst er möguleiki á að nýta orku, þ.e. nýjar orkuauðlindir, hvort sem það er jarðhiti eða vatnsafl, til þess að við fáum þann kraft sem þarf til að koma okkur áfram? Mér sýnist að flestir horfi til þess að við nýtum áfram þær auðlindir sem við eigum, sem eru að sjálfsögðu fiskurinn, vatnið og orkan. Ég fæ ekki séð af þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, þessari þingsályktunartillögu um rammaáætlun — úr því að virkjanir í Þjórsá og Norðlingaölduveita og annað er tekið til hliðar þá velti ég fyrir mér hvenær við sjáum að næstu framkvæmdir geti farið af stað og þá hvenær orka úr þeim framkvæmdum getur farið að nýtast okkur til uppbyggingar.

Enn sem komið er hef ég ekki sérstakar skoðanir á virkjun í neðri hluta Þjórsár. Mér finnst hins vegar fráleitt að ýta Norðlingaölduveitu til hliðar en hitt ætla ég að leyfa mér að skoða. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvenær hann sjái einhver endalok í þessu öllu saman.