140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða ítarlega við hv. þingmann um einstaka virkjunarkosti en þó er nauðsynlegt að koma því á framfæri að það er mjög ánægjulegt að Hvalárvirkjun skuli vera í nýtingarflokki. Það eru hins vegar nokkur vandamál varðandi þá ágætu virkjun, þ.e. að tengja orkuöflunina við kerfið. Miðað við þær forsendur sem Landsnet og aðrir aðilar gefa sér í dag er það nánast ómögulegt. Þar af leiðandi þarf að athuga hvort hægt er að nýta orkuna nær virkjuninni en menn hafa áður verið að velta fyrir sér og er það vitanlega í skoðun.

Síðan er það vatnsaflsvirkjunin, þ.e. það að stækka Blöndu. Aðrar vatnsaflsvirkjanir eru bara ekki í nágrenninu, það verður að segjast eins og er. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt fyrir sér virkjunum í fallvötnum Skagafjarðar, jökulánum, Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun. Báðar eiga að mínu mati að vera mjög framarlega. Mjög lítil umhverfisspjöll ef nokkur eru af Skatastaðavirkjun. Gert hefur verið ráð fyrir að hlífa þeim náttúruminjum sem þar eru einna helst í hættu og mikilvægt að það sé gert, svokallaðar Orravatnsrústir. Það felast hins vegar mikil tækifæri í því að nýta þá orku og ekki síst fyrir landeigendur sem eiga land að þessum ám í Skagafirði upp á frekari nýtingu, t.d. út frá veiðum eða öðru slíku.

Orka úr þessum ám yrði að mínu viti að nýtast sem mest heima fyrir, í Skagafirði vitanlega, en einhver umframorka mundi að sjálfsögðu nýtast einna best á Norðurlandi. Ég spyr hvort þingmaðurinn sé sammála mér um að skoða það sérstaklega að þessar virkjanir fari framar í röðina.