140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:09]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina tveimur spurningum til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og þær varða þessa virkjanaumræðu sem svo sýknt og heilagt kemur upp og þá sérstaklega kannski úr hans flokki.

Talið er tæknilega hagkvæmt að virkja um 60 þúsund gígavattstundir á ári. Þegar er búið að virkja rétt um 30% af þeirri orku og í nýtingarflokki rammaáætlunar eru um 20% af þeirri orku til viðbótar. Í biðflokki eru hins vegar aðeins 7,7% og í verndarflokki, undir náttúruvernd, eru 40,6%. Það er sem sagt ráðgert að virkja um 60% af tæknilega virkjanlegri orku á Íslandi samkvæmt þessari áætlun. Hvers vegna er það ekki nóg og hvað vill hv. þingmaður, og þá Sjálfstæðisflokkurinn líka, ganga langt í því að virkja? Vilja þeir virkja allt sem virkjanlegt er án tillits til þess hvaða áhrif það hefur á umhverfi og landslag ef það er tæknilega mögulegt? Er það endanlega niðurstaðan sem mun alltaf koma frá þeim um virkjanir og virkjanaáætlanir að það eigi einfaldlega að virkja allt af því bara og skeyta þá kannski lítið um annað en það sem þegar er komið í verndunarflokk?