140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:17]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur tillaga að þingsályktun um áætlun, vernd og orkunýtingu landsvæða. Í áætluninni skal lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.

Hér í umræðunni hefur saga vinnunnar við rammaáætlun frá því fyrir aldamót verið rakin þannig að lengi hefur staðið til að leita víðtækra sátta um nýtingu og friðun þekktra virkjunarkosta landsins. Því er það skref í jákvæða átt að fyrir þinginu liggi nú tillaga til þingsályktunar, tillaga sem ég lít svo á að sé umræðugrundvöllur fyrir lokasátt um rammaáætlun. Mikil vinna faghópa liggur að baki þessu plaggi. Fyrir þá vinnu ber að þakka og dreg ég ekki í efa að þar hafi fagmennska og sanngirni verið höfð að leiðarljósi. Fjórir faghópar sérfræðinga lögðu grundvöll að röðun svæða eftir verðmætum og virkjunarhugmyndum og ólíkum hagsmunum þar sem tekið var m.a. tillit til náttúru- og menningarminja, útivistar, ferðaþjónustu og hlunninda, efnahagslegra og félagslegra áhrifa virkjana, virkjunarhugmynda og hagkvæmni þeirra.

Í tillögunni er lögð fram stefna um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna enn frekar. Þá er talað um mikilvægi þess að tryggja eftirfylgni og framkvæmd áætlunarinnar, styrkja verulega starfsemi Umhverfisstofnunar á verksviði friðlýsingar vegna svæða í verndarflokki og umsjón með friðlýstum svæðum. Verkefnisstjórn verði áfram skipuð og vinni áfram með þá virkjunarkosti sem eru í biðflokki og aðra virkjunarkosti og meti hvort ástæða sé til að leggja fyrir ráðherra rökstudda tillögu um breytta flokkun í samræmi við lög nr. 48/2011.

Ég tel að það hefði verið verkefninu til heilla ef vandað hefði verið betur til verka eftir að faghóparnir skiluðu sinni röðun. Sú skoðanakönnun sem átti sér stað í verkefnisstjórninni og síðar endurröðun hæstvirtra ráðherra iðnaðar- og umhverfismála er til þess fallin að valda frekari tortryggni og auknu átakaferli í þinginu. Ég kann þó að meta hreinskilni hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem lét þingið vita í ræðu sinni á miðvikudaginn að jafnræðis hefði ekki verið gætt þegar tekið var tillit til innsendra umsagna varðandi umrædda tillögu til þingsályktunar. Aðallega hefði verið tekið tillit til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða en síður sjónarmiða um efnahagsleg og félagsleg áhrif og hagkvæmni virkjunarkostanna, þ.e. að sjónarmið þeirra sveitarfélaga og íbúa þeirra landsvæða lentu undir í meðförum hæstvirtra ráðherra.

Frú forseti. Þetta vekur spurningar um framkvæmd lýðræðis sitjandi íslenskra stjórnvalda í dag. Grunnhugmyndir um lýðræði varða möguleika og rétt einstaklinga og hópa til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt og þá þjónustu og framkvæmdir sem í boði eru. Sveitarstjórnirnar fara með meirihlutaumboð íbúanna í sveitarfélögunum og þekkja hug þeirra vel. Það hlýtur þá að höggva nærri lýðræðinu þegar umsagnir þeirra og umbeðnar athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa eru virtar að vettugi. Að þessu sögðu treysti ég á að í meðförum þingsins muni jafnræðis verða vel gætt, lýðræðisleg vinnubrögð tryggð og tekið verði tillit til allra sjónarmiða.

Nú er búið að raða virkjunarkostunum niður í nýtingarflokk, biðflokk og friðunarflokk. Eins og gefur að skilja ríkja ólík sjónarmið varðandi virkjunarkostina. Margir sjá möguleika í að virkja endurnýjanlegar orkuauðlindir, svo sem vatnsorkuna og háhitann. Kosturinn við þær orkulindir eru að þær endurnýja sig svo að komandi kynslóðir geta áfram nýtt þær til þeirra nota sem þá munu þykja ákjósanlegust. Gallinn er hins vegar sá að umhverfisáhrifin eru vel sjáanleg eins og öll mannanna verk. Þessi áhrif verður að kanna vel sem er jú gert í aðdraganda og undirbúningi að virkjunarframkvæmdum og áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdunum. En svo virðist vera að þeir virkjunarkostir, sér í lagi varðandi vatnsorku, sem langt eru komnir í undirbúningi og rannsóknum fari í biðflokk frekar en nýtingarflokk vegna vöntunar á rannsóknarupplýsingum, sem jafnvel koma fram í umhverfismati sem þarf að skila áður en virkjunarleyfið er útgefið. Svo virðist sem sumir virkjunarkostir þurfi bæði belti og axlabönd til að vera valdir inn í nýtingarflokk, þeir séu þess í stað settir í biðflokk, sem vekur spurningar um hvort röðun virkjunarkostanna hafi notið jafnræðis eða hvort persónuleg skoðun hæstvirtra ráðherra hafi ráðið för.

Mig langar til að taka dæmi af tveimur ólíkum virkjunarkostum og vitna, með leyfi forseti, í umsögn frá Rarik vegna Hólmsárvirkjunar með miðlun við Atley. Það kemur fram í umsögninni að umræddar upplýsingar, sem sagðar eru vanta, séu til og hafi verið ítrekað sendar inn til verkefnishópsins. Þarna mætti halda að um misskilning væri að ræða varðandi meinta vöntun á gögnum. Ég vek athygli þingsins á að rök eru fyrir því að Hólmsárvirkjun með miðlun við Atley henti sérstaklega vel til að virkja fyrir almennan markað með takmörkuðum umhverfisáhrifum.

Þá vík ég að umsögn þriggja sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum, Þingeyjarsveitar, Norðurþings og Skútustaðahrepps, varðandi Gjástykki. Fram kemur í þingsályktunartillögunni að Gjástykki raðast í verndarflokk þar sem friðlýsing svæðisins er í undirbúningi og að virkjunarkostirnir liggja í nágrenni náttúruminja með hátt verndargildi sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar.

Nú er það svo að umtalað Gjástykki, þessir 110 ferkílómetrar lands, liggur innan landamæra þeirra þriggja sveitarfélaga sem hlut eiga að máli. Árið 2006 skipuðu sveitarfélögin þrjú samvinnunefnd um gerð landnýtingar- og verndaráætlunar fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum, Gjástykki þar með talið. Tilgangurinn með gerð þeirrar áætlunar var fyrst og fremst að samþætta nýtingu og vernd þannig að tekið væri tillit til náttúrufars og náttúruverndarsjónarmiða eins og framast væri kostur við hugsanlegar virkjunarframkvæmdir og aðra tilheyrandi mannvirkjagerð. Í kjölfarið á þeirri vinnu unnu sveitarfélögin sameiginlegt skipulag vegna svæðisins og komust að þeirri niðurstöðu að stefna að verndun rúmlega 97% svæðisins og að aðeins tæplega 3% þess yrði skoðað með tilliti til frekari virkjunarrannsókna og hugsanlegrar virkjunar.

Nú virðist sem vit eigi að hafa fyrir sveitarstjórnunum og taka ákvarðanir um umrætt landsvæði þvert á vilja og án samstarfs eða samráðs við sveitarfélögin eða landeigendur. Eðlilega koma þá upp spurningar um framkvæmd lýðræðisins við gerð þessarar þingsályktunartillögu.

Eins og ég sagði áður treysti ég því að þingið muni vinna hér heiðarlega með lýðræði í huga og gæti jafnræðis.