140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir aldeilis ágæta ræðu og yfirferð yfir þessa mikilvægu þingsályktunartillögu. Ég hjó eftir því að hún hlustaði greinilega gaumgæfilega á ræðu hæstv. umhverfisráðherra sem sagði mjög hreinskilnislega að ekki hefði verið gætt jafnræðis heldur hefði sérstaklega og eingöngu verið farið eftir sjónarmiðum náttúruverndar- og umhverfissjónarmiða. Það kemur kannski ekki á óvart komandi frá hæstv. umhverfisráðherra, ég held að það sé kannski í samhengi hlutanna eðlilegt að slík sjónarmið séu uppi af hálfu hæstv. umhverfisráðherra. Eftir stendur að þingið er núna að fá tillöguna til umfjöllunar og ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt tækifæri sem við á þinginu höfum til þess að leiða málið í jörð, má segja, að minnsta kosti til að horfa til lengri tíma en bara til næsta árs. Ég segi þetta í tengslum við það að kosningar verða á næsta ári því að eins og tillagan liggur núna fyrir er ljóst af minni hálfu að þetta er ekki tillaga sem mun verða stutt við til lengri tíma af því að hún hefur greinilega þýtt heilmikil átök innan ríkisstjórnar, þetta er málamiðlun ríkisstjórnarflokkanna til þess að halda lífi en ekki málamiðlun með tilliti til náttúru og með nýtingu í huga.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún muni styðja breytingar sem hugsanlega gætu orðið á þessari þingsályktunartillögu í samræmi og meiri samhljómi við tillögur og niðurstöður verkefnisstjórnarinnar, breytingar sem færu meira í áttina að tillögum verkefnisstjórnarinnar og fjær því sem stendur í þessu plaggi. Gæti hv. þingmaður stutt slíka tillögu?