140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:29]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og undirtektir við ræðu mína. Ég mun styðja allar góðar tillögur sem byggðar eru á lýðræðislegum umræðum á málefnalegum rökum.

Það er margt gott í þessari þingsályktunartillögu sem ég mun styðja en ýmislegt finnst mér þurfa að ræða og skoða betur og fara betur í þær umsagnir sem hafa borist, m.a. frá sveitarfélögunum, landeigendum og fleirum sem að koma, að sjálfsögðu í báðar áttir. Mér þótti það mjög sérstakt þegar hæstv. umhverfisráðherra sagði, og virtist stolt af, að ekki hefði verið gætt jafnræðis þegar innsendar umsagnir voru skoðaðar. Því segi ég að ég lít á þessa tillögu til þingsályktunar sem umræðugrundvöll okkar í þinginu til að vinna að heildstæðri sátt af því að ég veit að það er svo mikilvægt að við búum til plagg sem við trúum öll á. Það þarf að vera sátt um það. En það er líka ýmislegt varðandi þessar raðanir sem sagt hefur verið sem vekur mann til umhugsunar um þau vinnubrögð sem voru viðhöfð. Því miður virðist sem menn hafi ekki getað sleppt því að setja sína persónulegu skoðun þarna inn líka. Mér fannst það fulllangt gengið af hálfu hæstvirtra ráðherra.

Já, ég mun styðja allar breyttar og góðar tillögur sem koma að þessari þingsályktunartillögu.