140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég hef nú í dag hlýtt á umræðuna um þetta mikilvæga mál og spennandi mál. Það er spennandi með tilliti til framtíðarinnar, með tilliti til landsins okkar og þeirrar náttúru og nýtingar sem er svo mikilvægt að geti tónað saman, því að nýtingin hjálpar okkur áfram á svo margan hátt með því að þroska okkur, með því að efla þekkingu á landinu sem reyndar má kannski segja að sé ein helsta útflutningsvara okkar og styrkur okkar á svo mörgum sviðum sem snertir nýtingu orku, hvort sem um er að ræða jarðhita eða virkjun fallvatna. Þar erum við komin með margra áratuga reynslu. Ég hef fengið að kynnast því sjálf að ávallt snerta spurningar forustumanna erlendra ríkisstjórna þessa þætti; þekkingu okkar Íslendinga annars vegar á sviði sjávarútvegs og hins vegar á sviði orkunýtingar bæði á jarðhita og vatnsafli.

Ég verð að segja að ég beið svolítið spennt eftir því hvernig þessi þingsályktunartillaga liti út því að ég var að vonast til þess, þrátt fyrir að ár sé í kosningar, að menn hugsuðu stærra því að það er einstakt tækifæri núna til að sameina stjórnmálaöflin. Við skulum segja það alveg skorinort að innan míns flokks, Sjálfstæðisflokksins, erum við ekkert endilega sammála um alla virkjunarkosti. Ég hef eina skoðun og annar þingmaður hefur aðra skoðun. En ef sú leið hefði verið farin að fara sem mest eftir því sem verkefnisstjórnin lagði til en ekki því hvort líf ríkisstjórnarinnar yrði styttra eða lengra hefðu að mínu mati fleiri stjórnmálaflokkar en Sjálfstæðisflokkurinn verið bundnir við slíka tillögu. Það sem ég hefði viljað sjá var að menn hugsuðu stærra og lengra, ekki síst í ljósi þeirrar mikilvægu vinnu sem hefur farið fram. Menn vitna hér til ársins 1999, þá fór hið formlega ferli fyrstu verkefnisstjórnarinnar af stað en aðdragandinn var lengri. Hugsun stjórnmálamanna ekki síst til að ná þessu háleita markmiði, að ná sátt um orkunýtingu landsmanna til lengri tíma, nær í rauninni langt aftur. Það er líka hægt að nefna árið 1993 þegar sett var á stofn nefnd af þáverandi umhverfisráðherra, og sú ríkisstjórn setti af stað ákveðna áætlun um gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hugsunin var að ná þessari fyrirheitnu leið um sátt þar sem menn gera sér grein fyrir að það verða ekki allir sáttir en þó þannig að hægt sé að búa við hana lengur en í fjögur ár og að við henni verði ekki ávallt hróflað á fjögurra ára fresti með tilliti til þess hverjir halda um stjórnvölinn hverju sinni.

Þegar við skoðum hver aðdragandinn var — ég held að aðdragandinn skipti máli í þessu verkefni öllu, þessu sameiginlega verkefni okkar að ná utan um það að setja fram rammaáætlun sem nær til raunverulega langs tíma en ekki bara þess eina árs sem fram undan er — sjáum við að ráðherrar fyrri tíma gerðu sér far um að tefla fram fólki sem tengdist þessum málum mjög mikið, hafði sérþekkingu á sviði umhverfismála, náttúrunýtingar og menningarmála, því að síðar meir kom inn fulltrúi af hálfu menntamálaráðuneytisins sem var Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, af því að taka átti að tillit til svo margra sjónarmiða. Allt frá því að fyrsti áfangi rammaáætlunar fór af stað árið 1999 áttuðu menn sig á því að lykillinn að því að ná þessari sátt væri að gefa sér tíma, sinna rannsóknum, afla gagna og það hefur svo sannarlega verið gert síðan 1999 undir forustu þess fólks sem kom að þessu verkefni á þeim tíma.

Fyrsta áfanga var lokið í nóvember 2003. Ákveðið var að halda áfram með fleiri vatnsorku- og jarðhitahugmyndir. Síðan var verkefnisstjórn skipuð í september 2004, hún lauk störfum í maí 2007 og þá var skipuð þriðja verkefnisstjórnin. Hún hóf vinnu með svipuðum hætti en þó með ákveðnum áherslubreytingum, hún skipti nálguninni á þessu verkefni í fjóra þætti, þ.e. sérstaklega er fjallað um náttúru og menningarminjar í þeim fyrsta, útivist, ferðaþjónusta og hlunnindi í öðrum, efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana þeim í þriðja, og virkjunarhugmyndir og hagkvæmni þeirra þeim í fjórða. Þannig að það var farið vel yfir hlutina á þessum tíma.

Ég man líka þá tíma í þinginu alveg frá 1999 að allir voru með ákveðnar hugmyndir um hvað mætti virkja og hvað ekki. Það voru mjög skiptar skoðanir um ýmis virkjunarsvæði. Það var oft talað til dæmis um Torfajökulssvæðið, það væri hagkvæmt o.s.frv., og það var allan tímann á áætlun. Síðan er það tekið í vinnu þessara verkefna og sagt skýrt og skorinort að það beri að friða. Ég hefði talið að það til að mynda og út af fyrir sig væri stór og mikill áfangi.

Ég get talað fyrir sjálfa mig hér líka. Ég fagna því sérstaklega að í þessari áætlun skuli Bitra, Grændalur og svæðið sem þar er í Ölfusinu nálægt þéttbýlinu á suðvesturhorninu — við erum bara rétt 25 mínútur, hálftíma að skjótast þangað — að þetta gríðarlega mikla útivistarsvæði og náttúruperla skuli vera friðað. Það var ekkert sjálfgefið og ýmsir vilja fara í virkjanir á þessu svæði.

Þess vegna hefði ég haldið að með því að rýna þetta betur og átta sig á að þetta verkefni er stærra en það að sú vinstri ríkisstjórn sem nú er að störfum lifi það. Það hefði verið farsælla ef menn hefðu áttað sig á því og þorað að forgangsraða í þágu náttúru og nýtingar og reynt að ná ákveðinni sátt við alla stjórnmálaflokka. Mér finnst miður að þetta tækifæri hafi verið vannýtt því að það liggur alveg ljóst fyrir að ákveðnir þingmenn Vinstri grænna hafa sagt að þeir muni hætta stuðningi við ríkisstjórnina ef ákveðin svæði sem voru virkjana- og nýtingarmegin verði ekki sett í biðflokk eða verndun eins og var með Norðlingaölduveitu. Það er margsannað, og ég veit ekki hversu margir hópar og stórar og viðamiklar nefndir hafa farið meðal annars yfir Norðlingaölduveitu, að það er ekkert svæði, enginn virkjunarkostur sem er jafnhagkvæmur og Norðlingaölduveita, sem er reyndar veita, ekki stóreflisvirkjun heldur veita. Ég veit að þeir sem þekkja það mál átta sig á að þar er verið að loka fyrir mikla möguleika fyrir fólkið okkar til framtíðar til að skapa hagvöxt og tækifæri, hvort sem tækifærin eru á sviði þekkingar eða til eflingar hagvexti og kaupmætti í landinu. Mér finnst miður að menn skuli hafa hróflað við þessu með þeim hætti að eftir stendur þingsályktunartillaga sem við munum náttúrlega að sjálfsögðu fara vel yfir og ég óska þess og vona heitt og innilega að menn innan þeirrar nefndar sem fær málið til umsagnar fari vel yfir athugasemdir, ekki bara þær sem ríkisstjórnin tók tillit til, heldur annarra við meðferð málsins. Ábyrgð þeirra sem þar eru er að ná fram þeirri sátt sem ég greini að allir flokkar eru tilbúnir til að ná, af því að menn átta sig á að það skiptir svo miklu máli að við hættum þessari heiftugu umræðu sem getur orðið, eðlilega, í tengslum við náttúru Íslands og reynum að vera stærri en svo að halda áfram þeirri umræðu en reynum að ná almennilegri niðurstöðu.

Ég fagna því að áætlanir liggi fyrir. Ég lýsi því hins vegar yfir að mér finnst vont að sjá þessi rammpólitísku puttaför sem einmitt var reynt að draga úr á því 13 ára ferli sem verkefnið hefur verið í. Ýmsir stjórnmálamenn vildu komast í verkefnisstjórnina og með þeim hætti leggja sínar áherslur. Menn létu í ljós, til að mynda í ríkisstjórnum sem ég var, ýmsar hugmyndir um hvað ætti að gera. En þá var sagt: Nei, nú er þetta komið í ákveðið ferli, leyfum því að klárast til að þetta fari ekki enn einn ganginn allt upp í loft.

Ég hefði svo gjarnan viljað að sú leið sem þar var mörkuð hefði verið farin því að það voru fleiri flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem komu að þessari nálgun, það var Samfylkingin líka. Ég veit ekki betur en að Vinstri grænir hafi verið sáttir við alla málsmeðferðina. Þess vegna finnst mér miður að ekki síst Vinstri grænir skuli vera þeir sem taka sáttina frá okkur, þessa mikilvægu sátt um langtímanýtingu varðandi jarðhita og orku okkar Íslendinga, sátt sem hefði skipt svo miklu máli líka upp á það að halda áfram að byggja upp farsæld í samfélaginu, þekkingu sem við erum stolt af en líka leið til þess að fá að njóta yndislegrar náttúru til lengri tíma litið.