140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:41]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ágætisræðu. Ég er sammála því í prinsippinu að rammaáætlunarferlið ætti að hafa verið sem faglegast og það hefur í raun og sann verið það. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Önnur snýr að því sem hún talaði mikið um að virkjunarkostur hefði verið færður úr nýtingarflokki í biðflokk af stjórnmálamönnum. Nú er það svo að það er gert með ákveðnum faglegum röksemdum. Staðreyndin er sú að einungis 7,7% af tæknilega hagkvæmum virkjunarkostum á Íslandi eru í biðflokki, einungis 7,7%. Finnst henni virkilega ekki rétt að menn leyfi þessum vafaatriðum að bíða og leyfi náttúrunni að njóta vafans þangað til búið er að rannsaka þetta til hlítar? Þegar einu sinni er búið að virkja verður ekki aftur snúið. Þá er ekki hægt að breyta hlutunum. Hér er verið að tala um hugsanlega bið í einhvern tíma með Urriðafossvirkjun og virkjanir í neðri Þjórsá sem mér finnst sannarlega vera þess virði að bíða eftir niðurstöðum rannsókna úr.

Hin spurningin snýr að því sem kannski er meira við bæjardyrnar hjá okkur í Suðvesturkjördæmi. Það eru jarðvarmavirkjanirnar. Nú voru jarðvarmavirkjanir á sínum tíma seldar mér með þeim formerkjum að þær væru umhverfisvænar þangað til ég sá Hellisheiðarvirkjun og þangað til ég komst að því að nýting úr þessum virkjunum, þegar þær eru notaðar til raforkuframleiðslu, er einungis 12–15%. 85% af orkunni puðrast út í loftið og nýtist ekki. Mér finnst lítið hafa verið talað um það hér á þingi. Mig langar til að spyrja um viðhorf (Forseti hringir.) þingmannsins til þessarar nýtingar og hvort ekki sé rétt að bíða með þennan mikla jarðvarmageira og athuga (Forseti hringir.) hvort ekki megi ná betri nýtingu úr honum en þetta.