140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðara atriðið held ég að það liggi alveg ljóst fyrir ef við skoðum söguna varðandi þekkingu okkar á vatnsaflsvirkjunum að þá var sú þekking ekki fullkomin í byrjun en hún þróaðist með okkur. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að við höldum áfram ákveðnum verkefnum til að þróa þekkinguna og bæta rannsóknir þannig að við náum sem mestu út úr því sem við erum að virkja hverju sinni. Það sama á að sjálfsögðu við um jarðhitann. Við eigum að fara varlega og ég tel að við séum að fara nokkuð varlega. Við erum að læra núna af þeirri reynslu sem við erum að fá og ég er sannfærð um að við munum innan fárra missira fá aukna þekkingu á grundvelli okkar vísindamanna, verkfræðinga, tæknifræðinga og allra þeirra sem koma að uppbyggingu virkjana, og við munum öðlast meiri þekkingu einmitt til að beisla það sem við erum kannski núna svolítið hrædd við í tengslum við jarðhitavirkjanirnar.

Á móti kemur varðandi Reykjanesið og það sem tengist Reykjanesinu og einmitt þeim þáttum sem ég kom inn á í ræðu minni varðandi Bitru og svæðið þar um kring, ég held að það sé líka hluti af því að menn vilji fara varlega. Ég held að það einkenni það að menn vilji fara varlega, m.a. á þessu svæði, ekki bara með tilliti til náttúrunnar, hún er stórkostleg á þessu svæði og náttúrufegurðin ægimikil, heldur ekki síður vegna þess að menn þurfa að gefa sér ákveðinn tíma hvað þetta svæði varðar. Ég held að það skipti líka máli og fagna því sérstaklega að Bitra og svæðið þar um kring sé komið í verndun.

Varðandi það að gefa sér meiri tíma til að fá meiri upplýsingar. Ég verð að segja að það sem hefur komið fram í þessari umræðu og menn skýla sér oft á bak við til að tefja mál er að það vanti meiri upplýsingar. Ég held að fá svæði hafi verið rannsökuð jafnmikið og Norðlingaöldusvæðið og ekki síst þegar hér stóðu miklar pólitískar deilur sem voru leiddar í jörð af þáverandi hæstv. ráðherra og þingmanni, Jóni Kristjánssyni, með mjög farsælum hætti að mínu mati. (Forseti hringir.) Þá var farið gaumgæfilega yfir allar þær upplýsingar sem menn þurftu á að halda (Forseti hringir.) til að hægt væri að segja: Já, við getum farið í nýtingu á þessu svæði.