140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Út af þessu síðara atriði er alveg ljóst og ég ætla ekki að draga dul á að það er ekkert óeðlilegt að umhverfisráðherra setji fram þau sjónarmið að hún hafi barist fyrir því að bara sjónarmið náttúrusinna mundu njóta sín. En með því var hún að segja að markviss lýðræðishalli hefði verið byggður upp í málinu þegar það kom til ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn Íslands gætti ekki jafnvægis í þessu máli. Það er hlutverk okkar í þinginu að sjá til þess að öll sjónarmið, ekki bara þau sjónarmið sem henta Vinstri grænum, fái að njóta sín. Ég held að það sé mikilvægt hlutverk þingsins núna þegar þetta mál er hingað komið.

En varðandi fyrri ríkisstjórnir og umræður innan ríkisstjórnarflokka á fyrri tíma þá lá ljóst fyrir að mínu mati og öll sú umræða sem ég heyrði, ekki nema einhver allt önnur umræða hafi farið fram innan annarra ráðuneyta en ég upplifði þetta ávallt þannig að menn áttuðu sig á því að mikil átök voru varðandi virkjanir sem við höfðum ákveðið í gegnum tíðina, hvort sem það var Kárahnjúkavirkjun eða aðrar virkjanir. Við vildum leiða þessa umræðu í jörð með sæmilega mikilli sátt.

Margir stjórnmálamenn vildu fara í ýmsa nýtingu en aðrir vildu friða. Ég hef tekið fram að í mínum flokki hafa verið mismunandi sjónarmið. Ég get nefnt t.d. náttúru- og umhverfisverndarsinnann Katrínu Fjeldsted sem barðist ötullega fyrir ákveðinni verndun meðan aðrir voru á annarri skoðun í flokknum. Ég held að þetta endurspegli ágætlega samfélagið almennt. Þess vegna var það hlutverk okkar stjórnmálamanna að búa til aðferðafræði sem við gætum öll sætt okkur við.

Síðan varð ljóst í þeirri ríkisstjórn sem ég átti sæti í að menn ætluðu að fylgja þeim ráðum sem kæmu frá verkefnisstjórninni. Þess vegna var metnaður lagður í að skipa fólk sem hefði bæði faglega reynslu og aðkomu að málinu með tilliti til þekkingar sinnar. (Forseti hringir.)

Af minni hálfu lá allan tímann ljóst fyrir og ég held að ég geti talað fyrir hönd annarra í þessu (Forseti hringir.) að menn ætluðu sér ekki að krukka í þetta pólitískt eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert.