140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé kaldhæðni örlaganna að nú eftir vinnu allra þessara ára, á annan tug ára, til að ná þessari sæmilegu sátt, ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar, um nýtingarkosti til framtíðar fyrir landið okkar, skuli það vera Vinstri grænir sem klúðra þessu einstæða tækifæri. Mér finnst það kaldhæðni örlaganna.

Það liggur ljóst fyrir af minni hálfu og margra innan míns flokks að ef þetta kemur fram svona, óbreytt og með þessum röksemdafærslum — ef þær væru bara glænýjar eða eitthvað sem við hefðum ekki áttað okkur á í öllu þessu langa ferli og leiddi til þessara breytinga en það sjá allir að það eru pólitísk fingraför út í gegn á þessum breytingum og tilfærslum — þá eru ekki aðrir stjórnmálaflokkar bundnir af slíkri tillögu.

Þess vegna segi ég: Það er kaldhæðni örlaganna að af öllum skuli það vera Vinstri grænir sem klúðra því tækifæri til lengri tíma að við náum að setja heildstæða rammaáætlun um þessi mikilvægu málefni.

Hvað hefði þetta þýtt fyrir minn flokk? Ég held að það hefði verið mjög erfitt og ég hefði aldrei bakkað það upp ef menn hefðu farið að breyta þingsályktunartillögu í þessum efnum sem hefði farið í megindráttum eftir tillögum verkefnisstjórnar. Það hefði verið pólitískt óklókt af mínum flokki að rótast í slíkri tillögu þrátt fyrir hugsanlegan og vonandi stórsigur í næstu kosningum. En af því að vinstri stjórnin fór þessa leið tel ég okkur sjálfstæðismenn vera algerlega óbundna af því sem kemur fram hér.