140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom ekki inn á það í ræðu sinni, að ég heyrði eða tók eftir, að fjalla um niðurstöður verkefnisstjórnarinnar og faghópanna, hvort þingmaðurinn hafi í raun og veru verið sáttur við það sem út úr því kom. Þrátt fyrir að mikil vinna hafi verið lögð í þetta frá upphafi vitum við að sjálfsögðu að sitt sýnist hverjum og eðlilegt er að skoða hlutina með þeim augum sem hver hefur varðandi þetta, þ.e. að hafa sýn á það hvað er eðlilegt að nýta og hvað ekki.

Nú sýnist mér augljóst að tveir ráðherrar sem gripu inn í hafi talið að að þeirra mati ætti að færa til ákveðna kosti. Má þá líta svo á að rök séu fyrir því að endurskoða aðra kosti og færa þá jafnvel til í vinnu nefndarinnar? Nú fæ ég ekki séð að þær ástæður sem hafa verið gefnar upp fyrir þessari tilfærslu séu þess eðlis að það hafi kallað á það endilega. Væri þá rétt að meta mögulega nýjar upplýsingar eða skoða nýjar hannanir á einstökum nýtingarmöguleikum í ljósi þess að búið er að galopna ferlið á þennan hátt?

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður — af því að ég veit að þingmaðurinn þekkir vel til á mínum heimaslóðum í Skagafirði — hafi myndað sér einhverja skoðun á því hvort ekki sé tækifæri núna til að skoða hvort komnar séu viðbótarupplýsingar eða nýjar upplýsingar, eða ný hönnun, varðandi virkjanir og nýtingu á jökulánum í Skagafirði sem hafa runnið óáreittar út um allt í Skagafirði (Forseti hringir.) löngu áður en hv. þingmaður fór í sveit þar.