140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Hv. þingmaður nefndi hvernig hlutir eru metnir út frá náttúruvernd, verndargildi, byggðasjónarmiðum og öðru slíku.

Nú er það svo að faghópar fóru gaumgæfilega eða eins og þeir gátu í gegnum þessa kosti alla saman. Ákveðnir hlutir voru ekki metnir og ýmsar ástæður voru á bak við það o.s.frv. Það sem ég velti fyrir mér er þessi byggðarlegi þáttur. Ég ætla að vera alveg hreinskilinn við hv. þingmann, og forseta, að hann á að mínu viti að vera í fyrsta sæti þegar verið er að meta Hvalárvirkjun, svo ég taki dæmi, en ég sakna þess svolítið að vægi þessa þáttar hafi ekki verið meira.

Nú er Hvalárvirkjun annar af tveimur vatnsaflskostum sem eru í nýtingarflokki, og er stórundarlegt í sjálfu sér að þeir séu ekki fleiri. En úr því að við erum að tala um Hvalárvirkjun — er það sýnd veiði en ekki gefin út frá þeim reglum sem gilda um tengingar, t.d. á þeirri virkjun inn á kerfið? Ég kom aðeins inn á það fyrr í dag að þær reglur sem Landsnet er með um tengigjöld og annað gera það að verkum að takmarkaðar líkur eru á því að það borgi sig í það minnsta að miða við það að fara langt með þá orku sem þar er framleidd, og hafa menn þá aðallega verið að líta til að nýta orkuna nálægt. Eftir stendur þá að líklega er stækkun á Blöndu sá kostur sem er hagkvæmari í þessu öllu saman þegar á það er litið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta skipti ekki máli þegar við erum að meta þessa hluti.