140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Auðvitað hlýtur hinn byggðarlegi þáttur að vega mjög þungt þegar við horfum á þessa hluti. Það vó til dæmis mjög þungt á sínum tíma þegar menn tóku ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun. Hún var að vísu mjög hagkvæm eins og allir vita og hún var mjög stór og skipti miklu máli fyrir þjóðarbúið en menn horfðu líka mjög til hins byggðarlega þáttar í því sambandi.

Varðandi Hvalárvirkjun er það auðvitað ánægjulegt að hún er inni í nýtingarflokknum samkvæmt flokkuninni. Sömuleiðis er um að ræða þessa nýju Blönduveitu sem rætt hefur verið um, sem er líka mjög þýðingarmikill kostur og getur skapað nýjar og betri forsendur fyrir iðnaðaruppbyggingu á Norðvesturlandi. Þetta eru einu raunverulegu virkjunarkostirnir sem eru í nýtingarflokki í Norðvesturkjördæmi, kjördæmi okkar hv. þingmanns.

Það sem vekur óvissu varðandi Hvalárvirkjun er að þar virðist forsendan vera sú að greiddur sé tengingarkostnaðurinn frá virkjuninni inn á nýtingarsvæðið, sem yrði þá væntanlega annars staðar á Vestfjörðum, og þar er allt í óvissu.

Það er hins vegar áhugavert að velta einu fyrir sér. Þeir sem standa fyrir Hvalárvirkjun, sem eru einstaklingar og landeigendur á svæðinu, voru byrjaðir að undirbúa þá virkjun. Þeir höfðu leitað til sérfræðinga, þeir höfðu leitað til fjárfesta og alls staðar fengið mjög góðar viðtökur. Við höfum ástæðu til að geta verið mjög bjartsýn á að þar geti farið fram framkvæmdir. Þá gerðist það að mikil óvissa skapaðist í kringum þetta mál vegna þeirrar óvissu sem hefur verið í kringum rammaáætlunina. Það varð þess valdandi að þetta mál er í fullkominni óvissu núna og horfurnar eru miklu verri en þær voru upphaflega, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin hleypti málinu öllu saman í óvissu með framgangi sínum varðandi rammaáætlun. Það er hörmulegt en undirstrikar það að það sem hér er verið að gera, og með því meðal annars að setja fjölda virkjana í biðflokk, er verið að setja framkvæmdir í mikla óvissu, í að minnsta kosti fjögurra ára óvissu en ekki tveggja ára óvissu eins og hæstv. forsætisráðherra hélt fram.