140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum um þingsályktunartillögu sem lengi hefur verið beðið eftir. Allt þetta þing hefur í raun og veru verið beðið eftir að þetta mál kæmi úr því ferli sem ráðherrar umhverfis- og iðnaðarmála hafa haft það í að loknu umsagnarferli sem átti sér stað á síðasta ári.

Ég verð að segja í upphafi máls míns að það hefur valdið vonbrigðum hvernig málið hefur þróast frá því að hinni faglegu vinnu lauk. Reyndar verð ég að segja að í því sambandi má nefna fleira sem vonbrigðum hefur valdið á þessu kjörtímabili og tengist áformum um vernd og nýtingu orkukosta í landinu. Þá vísa ég ekki síst til þess sem ríkisstjórnin hefur lagt svona mikið kapp á að koma í veg fyrir að nýttir verði til frekari orkuvinnslu þeir möguleikar sem felast í Norðlingaölduveitu. Það er of langt að rekja allt ferlið í tengslum við þann virkjunarkost en í stuttu máli hefur það verið pólitísk niðurstaða þessarar ríkisstjórnar að taka þann kost alfarið út af borðinu og við erum þess vegna ekki með Norðlingaölduveitu í virkjunarflokki.

Ég er þeirrar skoðunar, svo ég komi því að í örstuttu máli, að þar hafi menn kastað frá sér gríðarlega miklu tækifæri til að virkja með mjög hagkvæmum hætti. Ég hygg að enginn virkjunarkostur sé jafnhagkvæmur og Norðlingaölduveita og á sama tíma væri með þeim kosti tekið mjög ríkt tillit til allra þeirra athugasemda sem fram hafa komið á fyrri stigum þess máls. Eins og ég gat um ætla ég ekki að fara ofan í saumana á þeirri umræðu allri en í stuttu máli hefur mjög mikið breyst frá því að fyrstu hugmyndir komu fram um virkjunaráform í Norðlingaölduveitu. Í tíð Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi ráðherra, voru gerðar miklar breytingar á fyrstu áformum og ég tel að síðustu hugmyndir um veitu þar hafi verið mjög skynsamlegar og það hafi verið komið gott jafnvægi í það mál.

En látum það eiga sig. Hér er komin fram þingsályktunartillagan sem beðið hefur verið eftir og þar vekur að sjálfsögðu mesta athygli hversu mjög er dregið úr orkunýtingarflokknum. Það er gert með þeim rökstuðningi að borist hafi umsagnir í umsagnarferli sem efnt var til á síðasta ári sem hafi gefið tilefni til að færa í biðflokk fjöldann allan af virkjunarkostum. Þetta eitt og sér hlýtur að vekja mikla athygli eftir alla þá vinnu sem átt hafði sér stað árin og kannski áratuginn þar áður við að meta þessa sömu virkjunarkosti og að hlusta að mestu eftir þeim sömu sjónarmiðum og birtust í umsagnarferlinu.

Ég verð fyrst að nefna í þessu samhengi virkjunarkostina í neðri hluta Þjórsár. Það er sagt að nú hafi komið fram athugasemdir sem gefi tilefni til að færa alla þá virkjunarkosti í biðflokk. Þetta þarf þingið að skoða nánar. Það er talað um laxgengdina í Þjórsá, sérstaklega mikilvægu búsvæðin í neðri hluta Þjórsár, og ég hygg að enginn þingmaður á Alþingi í dag láti sig ekki miklu varða að vernda þann stofn með öllum tiltækum ráðum. Eins og öll gögn málsins bera með sér hefur verið lagt í mikla vinnu við að meta áhrif virkjunar á þessu svæði á stofninn.

Eins og málið blasir við mér bíður það nefndarinnar sem fær málið til umsagnar að skoða meðal annars hvort þau sjónarmið sem komið hafa fram í umræðunni eigi jafnt við um alla þá virkjunarkosti sem hér eru settir í biðflokk eða hvort þeir snúi til dæmis einkum að Urriðafossi og hvort það sé hugsanlegt að á næstu missirum verði farið í enn frekari vinnu, telji menn tilefni til þess, við að meta áhrif virkjunar Urriðafoss á stofninn í ánni en hugsanlega ekki á hina virkjunarkostina. Þetta er eitt af því sem bíður manna.

Ég verð jafnframt að lýsa því almennt yfir að ég varð fyrir miklum vonbrigðum við að sjá svona einsleita niðurstöðu eins og hér birtist, þ.e. að eingöngu sé farið í aðra áttina. Allt sem einhver ágreiningur er um er fært úr virkjunarkosti yfir í biðflokk. Í umsagnarferlinu komu að sjálfsögðu fram sjónarmið beggja vegna frá, þ.e. á hinn veginn líka þar sem mælt var með frekari nýtingu en hér er rætt um. Niðurstaðan er sú að í þessari þingsályktunartillögu er í vatnsafli, ef við horfum til þess fyrst, eingöngu skilin eftir Hvalárvirkjun. Rétt er að halda því til haga að Blönduveitan er þar líka. Þetta er heldur rýrt miðað við fyrsta uppleggið. Við þurfum einfaldlega að spyrja okkur þeirrar spurningar á þinginu hvort komnar séu fram faglegar ábendingar, hvort þetta er fagleg niðurstaða eða hvort við erum ekki hér, sem mér hefur sýnst veruleikinn, komin út í hreina pólitíska niðurstöðu.

Það er ágætt að tala um þessa hluti alveg eins og þeir eru. Það er stefna annars stjórnarflokksins að meira eða minna leyti að vernda alla virkjunarkosti. Markvisst hefur verið talað gegn iðnaðaruppbyggingu í landinu og sérhver virkjunarkostur sem kemur til sögunnar er ávallt spyrtur við stóriðjuáform einhvers staðar á landinu. Svona hefur umræðan verið. Þess vegna er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu þegar maður sér þá miklu breytingu sem gerð er í þessu þingskjali miðað við drögin eins og þau voru auglýst á fyrra ári en að við séum fyrst og fremst með pólitíska niðurstöðu í höndunum. Það er slæmt, það er afar slæmt vegna þess hversu mjög menn eru að bregða af þeirri leið sem mörkuð var strax í upphafi, að vinna þessi mál á faglegum grunni alla leið áfram í gegnum þingið.

Við höfum mikla sameiginlega hagsmuni af því að ná breiðri sátt á þinginu um það til hvaða virkjunarkosta við getum litið en kannski var það draumsýn. Kannski var það draumsýn að hægt væri að vinna málið í gegnum sérfræðingahópa og taka það í framhaldinu í gegnum þingið án þess að pólitíkin næði að lokum yfirhöndinni. Kannski var það svo en það er þá til mikils skaða fyrir málaflokkinn í heild sinni vegna þeirra fjárfestingarverkefna sem margir horfa til og þurfa að byggjast á langtímahugsun.

Málið gengur til nefndar. Ég vonast til þess að sérstaklega þeir þættir sem hafa verið færðir í biðflokk verði teknir til sérstakrar skoðunar. Það er á engan hátt hægt að halda því fram að þessi tillaga sé ekki til þess fallin að á henni verði gerðar breytingar, langt í frá. Við höfum hins vegar heyrt það í aðdraganda þess að málið kom fram að það væri samtal í gangi á milli stjórnarflokkanna um að ekki mætti breyta þingskjalinu. Menn bera það af sér þegar það er borið á (Forseti hringir.) ráðherra í þingsal en við skulum sjá hver raunin er þegar málið fær vinnu í þinginu. Við skulum koma þessu máli sem allra fyrst (Forseti hringir.) í faglegan farveg og skoða valkosti okkar með framtíðaruppbyggingu landsins í huga.