140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að velta fyrir mér þegar skoðuð er landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins að þar er eingöngu á einum stað talað um orkuframleiðslu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjölmörg tækifæri eru til að auka orkuframleiðslu í góðri sátt við náttúru landsins.“ — Svo er talað um ákveðnar virkjanir. — „Tryggð verði næg orka til þess að áform um kraftmikla uppbyggingu orkufreks iðnaðar nái fram að ganga.“

Í ljósi þess hversu lítið vægi þetta fær í ályktun Sjálfstæðisflokksins hlýt ég að spyrja hvort það sé orðin einhver stefnubreyting frá því sem maður þekkti áður fyrr varðandi flokkinn. Er hann að breyta eitthvað út af varðandi stefnu sína í atvinnumálum og nýtingu orkunnar? Á þremur stöðum í þessari ályktun er fjallað um umhverfisnefnd og náttúruvernd.

Það kemur líka fram í ályktun landsfundarins að okkur beri að viðurkenna að maðurinn sé hluti af umhverfinu og eigi sem slíkur rétt við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Má skilja sem svo að landsfundur Sjálfstæðisflokksins telji að fram að þessu hafi Íslendingurinn verið einhvers konar aukaafurð, einhver komma í öllu því mati sem fer fram á gæðum landsins eða þegar verið er að meta umhverfið?

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins að ég hafði ekki lagst í djúpan lestur á landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins en það vekur athygli að það virðist vera mikil stefnubreyting hjá flokknum þegar kemur að því að ræða nýtingu á orkuauðlindum landsins.