140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það hefur ekki átt sér stað nein stefnubreyting hjá Sjálfstæðisflokknum hvað varðar það að nýta virkjunarkostina en við höfum hins vegar ávallt lagt á það áherslu að hafa gott jafnvægi á milli nýtingar og verndar. Að sjálfsögðu er maðurinn hluti af því samhengi sem við erum að ræða um og hv. þingmaður bendir á.

Ég hygg að það hafi verið skynsamlegt hjá okkur í Sjálfstæðisflokknum að fara ekki að tína til sem dæmi einstaka virkjunarkosti sem við vildum leggja sérstaka áherslu á einmitt vegna þess að vinnan var í þessum farvegi sem Sjálfstæðisflokkurinn átti svo mikinn þátt í að hefja á sínum tíma og er ágætlega rakið í þingskjalinu sjálfu, þ.e. aðkoma Sjálfstæðisflokksins að því að setja málið í faglegan farveg í upphafi. Það er sá grunnur sem var lagður að öllu því sem gerst hefur í framhaldinu. Við erum að tala um vinnu sem hefur staðið í á annan áratug. Við erum hér að ræða afrakstur þeirrar vinnu.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar er það síðan sett inn í stjórnarsáttmálann að ákveðinn virkjunarkostur komi ekki til greina, Norðlingaölduveita er bara tekin út fyrir sviga, er í raun í stjórnarsáttmálanum með því að menn ætla að stækka friðlandið í kringum Þjórsárverin. Það er sérstök ákvörðun að taka þann virkjunarkost út af borðinu, jafnhagkvæmur og hann er, og hann hefur ekki fengið að vera með í umræðunni síðan.

Síðan er það þetta sem við verðum vitni að í dag, eða um leið og þetta þingskjal kom fram, en var svo sem búið að spyrjast út í fjölmiðlana fyrir mörgum vikum, að ekki hefur tekist samkomulag um annað milli stjórnarflokkanna en að halda áfram að draga úr virkjunarkostum. Það er mjög alvarlegt mál eftir alla þá vinnu sem hefur verið unnin að menn skuli fara inn á þessa braut einmitt á þeim tímum sem við búum við í dag. Við þurfum að nýta hagkvæmustu virkjunarkosti okkar til að skapa störf og auka verðmætasköpun.