140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í fyrstu ræðu minni um svokallaða rammaáætlun ætla ég ekki að fara yfir virkjunarkostina sem slíka, það gefst ekki tími til þess í þessari fyrstu ræðu. Ég ætla að ræða um vinnubrögðin sem hafa verið notuð í þessu máli frá upphafi, til hvers var ætlast þegar farið var af stað í þá vinnu og í hversu hróplegu ósamræmi það er við þá stöðu sem málið er komið í núna.

Eins og nokkrir þingmenn hafa rakið á undan mér var ætlunin með rammaáætlun auðvitað að taka þessi umdeildu mál sem allir ættu þó auðvitað að geta verið í grófum dráttum sammála um, en hafa því miður ekki verið, út úr hinu pólitíska karpi, svo ég noti frasa sem er vinsæll nú um stundir, og finna á faglegan hátt, svo ég noti annan vinsælan frasa, hvar bæri að virkja og hvar bæri að vernda.

Tilgangurinn var auðvitað sá að saman færu náttúruvernd, sem allir ættu að vera sammála um, og orkuframleiðsla, sem allir ættu líka að vera sammála um að er nauðsynleg, og vinna að því hvernig mætti best og faglegast blanda þessu tvennu saman. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið nokkuð stórt skref fyrir ýmsa að leggja af stað í þessa vinnu vegna þess hversu ólíkar áherslurnar voru í upphafi, en menn féllust þó á að það þyrfti að þoka þessum málum áleiðis til að það kæmist einhver festa í þau og ekki væri verið að hringla með ákvarðanir fram og til baka eftir því hverjir sætu í ríkisstjórn hverju sinni. Eins og komið hefur fram fyrr í dag er oft og tíðum jafnvel ágreiningur innan flokka um hvernig forgangsröðun eigi að vera, en menn vildu ná þessum málum út úr ágreiningi og endalausri óvissu þar sem tækjust á ólíkir menn, ólík kjördæmi, ólíkir flokkar og skapa stöðugleika og festu fyrir náttúruna en líka fyrir atvinnulífið.

Þá gerist það með þessari ríkisstjórn að skyndilega er tekin ákvörðun um að henda þessu öllu í ruslið. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Láta einfaldlega eins og ekkert hafi gerst í málinu undanfarin 13 ár, eins og menn hafi aldrei tekið ákvörðun í sameiningu um að fara þessa leið, komið á þessum mikla friðarsáttmála um náttúruvernd. Nei, það var allt í einu ákveðið að líta fram hjá því og byrja frá grunni, að því er virðist. Kannski er þó fullmikið sagt að tala um að byrja frá grunni því að stefnan virðist vera sú, sú stefna sem virðist hafa orðið ofan á, að byrja bara ekki yfir höfuð, byrja ekki á neinu, setja allt í stopp. Málið var það langt komið að menn voru búnir að finna út að að minnsta kosti nokkrir virkjunarkostir væru í stöðunni sem væru jafnframt náttúruvænir. Þeir voru ekki margir sem ég taldi að menn hefðu fallist á að samstaða væri um að byrja á en jafnvel þeir flestir hverjir eru dottnir út líka.

Lítum aðeins á afleiðingarnar af þessu. Hverjar verða afleiðingarnar af því að setja í raun allt í stopp, grípa í handbremsuna? Jú, útkoman verður að sjálfsögðu áframhaldandi stöðnun í atvinnulífinu með öllum þeim afleiðingum sem það hefur bæði fyrir heimilin og fyrir ríkið. En afleiðingin verður líka áframhaldandi óvissa og er það æskilegt að mati umhverfisverndarsinna? Ég tel mig vera mikinn umhverfisverndarsinna og þess vegna vil ég fyrir alla muni að festa komist á þessa hluti svo að ég eigi ekki á hættu og þeir sem eru mér sammála, að hér taki einhvern tíma við ríkisstjórn sem fer of geyst í virkjunarmálum og nýtir auðlindirnar umfram það sem æskilegt er, geri það ekki í sátt við náttúruna. Þess vegna hefði ég viljað að á kæmist stöðugleiki, ekki bara til að við gætum haldið áfram eða byrjað að byggja upp efnahagslega heldur líka til að hafa einhvern stöðugleika fyrir íslenska náttúru.

Eins og í svo mörgu öðru er óvissan orðin allsráðandi í orkumálum. Það er ekki eins og við höfum mátt við því. Á undanförnum árum hafa verið gríðarlega mikil tækifæri til atvinnusköpunar á Íslandi og fjárfestingar. Fjárfesting er hins vegar í sögulegu lágmarki. Hverjar eru afleiðingarnar af því? Það er atvinnuleysið sem við horfum upp á, það er versnandi skuldastaða heimilanna, auknar skuldir ríkisins en líka viðvarandi gjaldeyrishöft. Nú hafa menn mikið rætt stöðu krónunnar og gjaldeyrishöft að undanförnu. Hvers vegna erum við í þessari erfiðu stöðu með gjaldeyrishöftin? Það er vegna þess að hér er engin fjárfesting, hún er í sögulegu lágmarki og á meðan ekki eru tækifæri í landinu til að fjárfesta í uppbyggingu og atvinnusköpun er fyrir hendi sú hætta að fjármagn streymi úr landi. Á meðan sú hætta er til staðar er ósköp erfitt að afnema gjaldeyrishöftin. Þannig að öll helstu vandamál þjóðarinnar stafa af þessari stöðnunarstefnu.

Með stefnubreytingu, með því að tryggja mönnum nægjanlega orku og jafnframt sæmilegan pólitískan stöðugleika, gætu farið af stað tugir alvörufjárfestingarverkefna og skapað þúsundir starfa. En með áframhaldandi stöðnun á öllum sviðum höldum við einfaldlega áfram að dragast aftur úr og það verður erfiðara og erfiðara að vinna okkur út úr vandanum. Þess vegna höfum við ekki tíma fyrir áframhaldandi tilraunastarfsemi af þessu tagi, tilraunastarfsemi sem er á vissan hátt alveg ný í pólitík.

Menn hafa margir hverjir fjallað um það á undanförnum árum og reynt að benda ríkisstjórninni á að sósíalisminn hafi verið prófaður sem stjórnkerfi í öðrum löndum og á öðrum tímum og aldrei virkað. Aðferðirnar sem verið er að nota á Íslandi, sem þessi ríkisstjórn er að nota, hafa aldrei virkað. En það er ákveðinn munur á þessari ríkisstjórn og fyrri sósíalistastjórnum, til að mynda í austantjaldslöndum. Þar var þó ofurkapp lagt á orkuframleiðslu. Það var ekki alltaf gert í sátt við náttúruna eða náttúran látin njóta vafans. Nei, það var farið býsna geyst í þeim efnum. En menn voru þó að framleiða orku, gerðu sér grein fyrir nauðsyn þess. Hér höfum við sósíalistastjórn sem framleiðir enga orku. Afleiðingin er fullkomin stöðnun. Við sjáum því af reynslu undanfarinna ára í hvað stefnir ef fram heldur sem horfir og við höfum ekki tíma til að bíða eftir stefnubreytingunni. Stefnubreytingin verður að eiga sér stað núna, annaðhvort með því að ríkisstjórnin sjái að sér, því miður er ekkert útlit fyrir að sú verði raunin, eða þá með því að boðað verði til kosninga, sem ég held að væri æskilegast af öllu.

Snúa ætti við blaðinu í stað þess að verja næsta ári í að reyna að troða í gegn einhverjum skammtímaákvörðunum, breyta stjórnkerfinu eins og hæstv. forsætisráðherra er að reyna að ná í gegn núna með frumvarpi um Stjórnarráðið, breyta stjórnkerfinu til sex mánaða þegar öllum má vera ljóst að því verði breytt strax aftur og það lagað þegar næsta ríkisstjórn tekur við, og jafnframt að setja 13 ára vinnu við rammaáætlun í fullkomið uppnám. Til hvers? Til að viðhalda stöðnun í eitt ár í viðbót í mesta lagi áður en næsta ríkisstjórn tekur við og algerlega óljóst hversu langt sú ríkisstjórn mun ganga við virkjunarframkvæmdir. Vonandi ekki of langt en nú er búið að skapa þá hættu að næsta ríkisstjórn fari fram úr sér, gangi lengra en þörf er á í orkuframleiðslu, og hvað er þá unnið með því að taka þennan slag af hálfu ríkisstjórnarinnar?

Við þurfum að taka upp skynsamlegra stjórnarfar á Íslandi því ef við gerum það eru til svo gríðarlega mörg tækifæri sem gætu skilað samfélaginu svo miklu svo feikilega hratt. Ef við náum fjárfestingu upp í það sem hún ætti að geta verið, getum við leyst gjaldeyrishöftin, við getum leyst skuldavanda ríkisins og heimilanna og leyst félagslegu vandamálin. En allt hangir þetta á því að við sköpum vinnu á Íslandi og vinna verður ekki til án orku.