140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé meiri hluti fyrir þessari tillögu. Ég get ekki fullyrt það en það er tilfinning mín eftir að hafa hlýtt á nokkra þingmenn Samfylkingarinnar, ekki marga, sem talað hafa á þeim nótum undanfarin missiri. Ég sé ekki hvernig þeir eiga með nokkru móti að geta samþykkt þá tillögu sem hér er til umræðu.

Ég tel hins vegar líka að ekki væri meiri hluti innan stjórnarliðsins fyrir breyttri tillögu, fyrir breyttri rammaáætlun. Hvað þýðir það? Þá er málið líklega bara í sjálfheldu, ekki nema þeir stjórnarliðar sem ég nefndi áðan séu reiðubúnir til að leggja fram skynsamlegar breytingartillögur sem stjórnarandstaðan getur fallist á og nýr meiri hluti myndist í málinu. Ég held að það væri farsælast vegna þess að ég trúi því þrátt fyrir allt að það sé meiri hluti í þinginu fyrir skynsamlegum virkjanaframkvæmdum, í sátt við náttúruna að sjálfsögðu, ef hver og einn greiðir atkvæði í samræmi við eigin sannfæringu.

Það er rétt að ítreka að meðal annars er talað um að koma í veg fyrir orkuskapandi framkvæmdir sem hafa sáralítil áhrif á umhverfi sitt, geta jafnvel verið til bóta. Sjáið nú bara virkjanirnar í Soginu til dæmis, falleg mannvirki sem bæta umhverfið, gegnumrennslisvirkjanir, ég tala ekki um virkjanirnar innan borgarmarkanna í Reykjavík. En þetta mætti væntanlega ekki byggja núna. (Gripið fram í: Ekkert Blátt lón.) Hér er kallað fram í að við fengjum líklega ekkert Blátt lón ef verið væri að taka þá ákvörðun núna undir þessari ríkisstjórn. Það er eflaust rétt.