140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að hann hefði bundið talsvert miklar vonir við að ástunduð yrðu fagleg vinnubrögð, þ.e. að þeim yrði fram haldið í vinnuferlinu því að sú vinna sem staðið hefur yfir síðustu 12 ár um það bil hefur verið mjög fagleg. Það má lesa það í þingskjalinu sjálfu hvernig staðið hefur verið að verki þar og er það verkefnisstjórninni til mikils sóma.

Hv. þingmaður var ábyggilega á svipuðum nótum og ég, þ.e. hann hefur haft of mikla trú á vinnubrögðunum en það gerist sem við erum svo sem búin að upplifa svo oft, að það verða einhver pólitísk hrossakaup til að halda lífi í ríkisstjórninni, eins og hv. þingmaður kom reyndar inn á í ræðu sinni.

Frá því að umsagnarferlinu lauk þann 11. nóvember síðastliðinn hafa tveir ráðherrar verið með málið og komu með það á þingið núna um miðjan apríl. Málið tók breytingum í meðförum þessara tveggja ráðherra áður en það kom til þingsins. Við heyrum stundum fagurgala um að menn vilji vanda vinnubrögð og efla sjálfstæði þingsins og framkvæmdarvaldið tók málið að sér. Hæstv. forsætisráðherra sagði um miðjan janúar að málið kæmi inn til þingsins í lok mánaðarins og við ræðum við það núna tæpum þremur mánuðum seinna. Það er öll þessi mikla og styrka og góða verkstjórn sem stjórnarliðar tala oft um í múgæsingu undir störfum þingsins þegar erfiðleikar steðja að. Hvað finnst hv. þingmanni um þessi vinnubrögð framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu?