140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur og aftur verðum við vör við sömu einkennin á vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Árni Johnsen segir oft að það skorti allt verksvit. En vandamálið er, eins og hv. þingmaður kom inn á, að allur fagurgalinn um breytt og betri vinnubrögð reynist aftur og aftur vera orðin tóm.

Lögð var mikil áhersla á að taka ætti upp víðtækt samráð um alla mögulega hluti. Hins vegar var mikið talað um að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og hvernig hefur þetta tvennt nú gengið? Við sjáum það hvað best á þessu máli. Varðandi samráðið ræðum við nú mál sem búið er að vera í miklu faglegu samráði í 12 eða 13 ár, mál sem hafði verið umdeilt en menn töldu að allir flokkar hefðu náð saman um hvernig vinna ætti að því, ekki bara í hruninu heldur var þetta stórt mál sem var fyrir löngu búið að setja í samráðsferli. Það var hugmyndin með rammaáætlun. En jafnvel í þessu mikla samráðsmáli, þar sem samráðið hafði staðið í meira en áratug, er samráðinu algerlega varpað fyrir róða.

Hvernig er með stöðu þingsins? Hv. þingmaður lýsti því hér. Ef eitthvert mál hefði átt að ræða í þinginu og hugsanlegar breytingar á því áður en ráðuneytin færu að krukka í því og skella inn gerbreyttu frumvarpi hlyti það að vera þetta mál í ljósi sögu þess. Einnig er í málinu algerlega vikið frá yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar, stefnu sem því miður reynist aftur og aftur orðin tóm.