140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin, ég tel að við séum nokkuð sammála um þau vinnubrögð sem stunduð eru hér. Mér dettur í hug þegar ég horfi fram í salinn og sé hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem hefur einmitt talað fyrir því að styrkja mjög stöðu þingsins, að þetta mál er kannski eitt af þeim málum sem undirstrikar enn og aftur það hversu mikilvægt það er.

Ég tek líka undir með hv. þingmanni þegar hann segir að mikilvægt hefði verið að klára málið án þess að senda það til framkvæmdarvaldsins í millitíðinni miðað við alla þá faglegu vinnu og þann ásetning sem var þvert á pólitík um að ná fram faglegri niðurstöðu og taka málið út úr hinu pólitíska þrasi, eins og stundum er sagt. En auðvitað gat hæstv. ríkisstjórn ekki gert það í þessu máli frekar en öðrum. Í raun og veru er það alveg furðulegt og varla hægt að bjóða upp á það þegar eftir eru 17 þingdagar og öll þessi stóru mál bíða, meðal annars sjávarútvegsmálin eins og þau eru og fleiri mál, að þá skuli þetta mál koma til fyrri umr. í lok apríl. Það er algerlega ólíðandi og ekki boðlegt og mun bjóða þeirri hættu heim að gerð verði mistök í lagasetningu, eins og margoft hefur komið fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann um hversu mikilvægt það sé efnahagslega séð að fara í þessar framkvæmdir. Hæstv. forsætisráðherra segir í viðtölum við fjölmiðla að þessar breytingar muni seinka áætlun um tvö ár að hámarki. Svo kemur hæstv. umhverfisráðherra og segir að lágmarkið sé fjögur ár þannig að ekki er nema 100% munur þarna á. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér varðandi verkstjórnina sem oft er rædd hér og skilning hæstv. forsætisráðherra á málunum? Hæstv. forsætisráðherra ber auðvitað höfuðábyrgð á stefnu ríkisstjórnarinnar. Undirstrikar þetta ekki enn og aftur mikilvægi þess sem hv. þingmaður kom inn á áðan að skipta verður um ríkisstjórn svo við komumst eitthvað áfram? (VigH: Heyr, heyr.)