140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

aðdragandi Icesave-samninganna.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að fá mál hafi verið rædd eins oft í þessari ríkisstjórn og Icesave-málið. Það var rætt á 40–45 ríkisstjórnarfundum og auðvitað allar forsendur að baki þessum samningum, áhrif þeirra og allt sem þurfti að ræða. Það var ekki bara ég sem ræddi þetta og kynnti það, eða við formenn flokkanna, heldur voru samningamennirnir sem voru fengnir í þetta verkefni kallaðir á ríkisstjórnarfund til að fara yfir drögin að samningi áður en samningurinn var undirritaður. Ég hygg að ekkert mál hafi verið rætt eins oft í ríkisstjórn og Icesave-málið eins og ég nefndi áðan og það var í alla staði mjög vel staðið að því máli.

Verulegar breytingar hafa orðið á vinnubrögðum í ríkisstjórn á þessum þremur árum. Við lærðum af hruninu, við fórum eftir því sem rannsóknarnefnd Alþingis sagði í þessu efni. Við höfum tekið til í stjórnkerfinu, breytt stjórnarráðslögum, komið á ráðherranefndum þar sem meðal annars einar fjórar ráðherranefndir fjalla um hin ýmsu mál. Sú sem oftast fundar er ráðherranefnd um efnahagsmál sem fundar reglulega, einu sinni í viku, um stöðu efnahagsmála, fjármálamarkaðinn og allar hættur sem hugsanlega steðja að. Fyrir eru kallaðir reglulega bankastjóri Seðlabankans og forstjóri FME ef þörf þykir. Ef sú nefnd hefði verið til staðar og unnið eins og hefur verið gert í ráðherranefnd á undanförnum tveimur, þremur árum vil ég leyfa mér að efa að hrunið hefði skollið á (Gripið fram í.) með þeim hætti sem það gerði.