140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

aðdragandi Icesave-samninganna.

[13:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Vegna þeirra fullyrðinga hæstv. forsætisráðherra að allt sé betra í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar nú en þegar hún sat sem félagsmálaráðherra væri hægt að nefna fjölmörg dæmi sem benda til hins gagnstæða. Ég hef hins vegar ekki tíma til að gera það hér og nú heldur ætla að ítreka spurninguna um kynningu á Icesave-samningnum. Ég er ekki að falast eftir upplýsingum um hversu oft ríkisstjórnin hafi rætt þetta á undanförnum tveimur árum eftir að samningurinn var kynntur, ég er að tala um kynninguna í aðdragandanum, þ.e. áður en samningurinn var undirritaður.

Það kom fram í máli hæstv. þáverandi fjármálaráðherra og núverandi hæstv. efnahagsráðherra að ekkert benti til þess að gerður yrði samningur um Icesave tveimur dögum áður en undirritaður samningur lá fyrir. Má skilja hæstv. forsætisráðherra sem svo að á þessu eins eða tveggja daga tímabili hafi hæstv. forsætisráðherra með fulltingi samninganefndarinnar farið yfir samningsdrögin í ríkisstjórn og jafnframt efnahagslegar afleiðingar þeirra? (Forseti hringir.) Ef sú er raunin, var þá þingið leynt þessum upplýsingum sem hafði verið farið yfir í ríkisstjórn? Í framhaldi af því var því haldið fram að slíkar upplýsingar lægju ekki fyrir. (Forseti hringir.) Það þurfti að kalla margítrekað eftir því að gerð yrði úttekt á þessum samningum.