140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

lengd þingfundar.

[14:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að ekkert okkar hérna inni kveinki sér undan vinnuálagi. Við erum tilbúin að vinna mikið, ekki síst þegar bjartar og fagrar vornætur renna upp. Hins vegar sé ég engan tilgang með því að við bætum við á þessum tímapunkti og lengjum fund fram yfir miðnætti. Það er þriðjudagur og þingsköp leyfa fund til miðnættis. Ég tel það alveg yfirdrifið. Það er yfirleitt þannig í samfélaginu að menn sem halda lengri fundi en einn eða tvo tíma viðurkenna að það sem kemur eftir það sé tilgangslítið. Hér skiptum við nú reglulega inn á og það kemur nýtt fólk til að tala og koma sjónarmiðum sínum á framfæri en það er fullt af fólki sem þarf að sitja yfir þessu og hlusta, þeir sem sitja í nefndunum og annað í þeim dúr. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk sitji hér fram á rauðar nætur og mæti síðan eldsnemma á morgnana og það sé verklagið sem við ætlum að fara fram með núna og þá væntanlega til þingloka sem eru 31. maí.

Ég held að við ættum að láta okkur duga að vera til miðnættis í kvöld.