140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir það að vekja athygli á afstöðu Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi sem hún reifaði hér ágætlega í ræðu sinni. Það er mjög ánægjulegt að þingmaðurinn hafi kynnt sér afstöðu sambandsins og reifað hana hér vegna þess að ræðutími okkar í þessari umferð er mjög stuttur og mér gafst ekki tími til að fara ítarlega í þá ályktun.

Þannig er, hæstv. forseti, að 1. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson samfylkingarþingmaður, hefur varpað fram þeim möguleika varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár að fara einungis í tvær efri virkjanirnar og láta Urriðafossvirkjun vera. Þessari tillögu hefur verið varpað fram, ekki hér í þinginu heldur í héraðsfjölmiðlum á Suðurlandi, og eins og hæstv. utanríkisráðherra mundi kannski segja svona til heimabrúks mundi ég halda og hélt fram í minni ræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér þessa tillögu vegna þess að eins og þetta liggur fyrir og áætlanir Landsvirkjunar byggja á hanga þessar þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár saman. Til þess að ná út úr þeim hámarksafköstum og hámarkshagræði þurfa þær allar að koma til. Með þeirri tillögu að fara í tvo kosti en láta þann þriðja eiga sig erum við að tala um allt aðra stöðu. Við náum þá ekki út þeim fjármunum og þeirri nýtingu og þeirri raforku sem annars væri hægt. Að mínu mati er þessi tillaga því algjörlega út í bláinn og gengur ekki upp. Mig langaði að vita hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér tillöguna, hvort henni sé kunnugt um hana og hvort hún sé sammála þessu mati mínu.