140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skal fyrst upplýst að ég hef setið alla ársfundi Landsvirkjunar eftir að ég var kosin sem þingmaður og þekki þessi virkjunarmál nokkuð vel. Ég hef meðal annars kynnt mér hagkvæmustu kosti Landsvirkjunar og það er þessi þriggja virkjana röð í Þjórsá. Þetta eru rennslisvirkjanir og því afar hagkvæmar og eru raunverulega tilbúnar. Landsvirkjun hefur sýnt fram á það með sannfærandi hætti að þetta eru ódýrustu virkjunarkostirnir sem bjóðast núna. Sífellt er verið að kvarta yfir peningaleysi bæði hjá Landsvirkjun og ríki. Mér finnst það því mjög óábyrgt hjá núverandi stjórnvöldum að gefa ekki grænt ljós á þetta og að hafa sett þessar virkjanir í biðflokk bara til þess eins að fresta málinu og, eins og ég fór yfir í ræðu minni, til þess virðist vera að ríkisstjórnin geti haldið ráðherrastólum sínum, því að Vinstri grænir hafa lagt á það ofurkapp að friða Þjórsá. Svona er nú pólitíkin eins og hún birtist manni. Hún birtist manni á þann hátt að atvinnulífinu er haldið lömuðu á meðan það gengur einhvern veginn svona dag frá degi hjá ríkisstjórninni.

Hér er verið að ræða um að Landsvirkjun sé að huga að því að leggja sæstreng til Evrópu. Landsvirkjun á ekki einu sinni orku til þess að uppfylla og mæta kröfum atvinnureksturs á Íslandi í dag og á ekki orku til þess að taka hér við þó þeim tækifærum sem bjóðast okkur í gegnum erlenda fjárfestingu.

En um orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, að taka bara tvær efri virkjanirnar, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, þá er það líklega bara til heimabrúks eins og þingmaðurinn gaf í skyn vegna þess að við vitum að mesti óróinn er í kringum Urriðafossvirkjun vegna þess að það er neðsta virkjunin. Ég held að hv. þingmaður ætti frekar að spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson héðan úr ræðustól hvað hann átti við með þessu (Forseti hringir.) því að heimabrúk hef ég aldrei kunnað við.