140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og hv. þingmaður kom inn á í upphafi var tekin ákvörðun fyrir um tólf árum að fara í þessa svokölluðu faglegu vinnu og taka þessi mál út fyrir pólitískt argaþras eða pólitískar deilur og fara yfir þau með vönduðum hætti. Síðan yrði lögð fram svokölluð rammaáætlun. En eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu þurftu stjórnvöld eða ríkisstjórnarflokkarnir náttúrlega að hræra í þeirri niðurstöðu.

Nú ætti hv. þingmanni að vera fullkunnugt um að ef það er eitthvað sem fer fyrir brjóstið á núverandi stjórnvöldum þá eru það fagleg vinnubrögð. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni að auðvitað snýst þetta bara um hvort ríkisstjórnin haldi lífi eða ekki, hrossakaupin sem þarna eiga sér stað snúast eingöngu um það. Og auðvitað eru ekkert allir sáttir við þessa niðurstöðu, hvar sem þeir standa. Sumir vilja færa meira í nýtingarflokk, aðrir vilja færa meira í verndarflokk o.s.frv.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki, í ljósi þess að menn ætluðu að setja þessi pólitísku átök til hliðar, að það hefði verið skylda stjórnvalda, sama hvort þau væru þeirrar skoðunar að nýta frekar eða vernda frekar, að standa við og standa að rammaáætlun þegar hún kæmi fram, í stað þess að gera eins og hér er gert og setja fram einstakar breytingar inn í rammaáætlunina sem þóknast núverandi stjórnvöldum. Það að stjórnvöld fari þannig fram gerir að verkum, að mínu mati, að öll þessi faglega, góða vinna sem kostaði mikinn tíma og mikið fjármagn er í raun og veru einskis nýt.