140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ég heyri það að við deilum svo sem ekki mikið um þessi vinnubrögð.

Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og ég hef verulegar áhyggjur af. Hér fór fram mikil og vönduð vinna og við getum öll verið sammála um það, þó að niðurstaðan þóknist ekki einstökum hv. þingmönnum eða hæstv. ráðherrum sem þurfa að láta persónuleg sjónarmið sín ráða för. Það kemur ekkert á óvart hvernig ríkisstjórnarflokkarnir haga málum sínum, þetta snýst eingöngu um að halda lífi í ríkisstjórninni, og ég tek undir með hv. þingmanni að þetta snýst ekki um almannahag eða þjóðarhag heldur einungis valdagræðgi núverandi stjórnarflokka.

Því vil ég velta upp þeirri spurningu við hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það með mér, sem mér finnast vera í raun alvarlegustu skilaboðin í þessu. Þá á ég við skilaboðin til allra þeirra sem komu að þessari vinnu, hvort heldur sem það voru einstaklingar eða sérfræðingar hjá ýmsum stofnunum ríkisins sem lögðu mikið á sig og unnu þessa vinnu. Meginatriðið er kannski að hér hafa sérfræðingar á vegum ríkisins með þessi málefni og málaflokka að gera og þá finnst mér það vera mjög alvarleg skilaboð sem þeim eru send, að fara að hræra í þessu með pólitískum hrossakaupum á milli stjórnarflokkanna. Það finnast mér vera afskaplega neikvæð skilaboð til þess ágæta fólks sem hefur lagt sig allt fram til að ná þessari niðurstöðu og meta kosti og galla hvers kosts fyrir sig. Í raun og veru er verið að gefa frat í þá vinnu. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að það séu mjög alvarleg skilaboð þegar fólk hefur lagt á sig svona mikla og vandaða vinnu og komist að þessari niðurstöðu?