140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og til þess hef ég tíu mínútur. Ég er hérna með tíu eða tólf atriði svo að ég verð að sjá til hvernig það gengur.

Í fyrsta lagi vil ég segja að það er jákvætt að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Það hefði vissulega verið betra að hún hefði komið í það minnsta ári fyrr og að ekki hefði orðið seinkun á störfum faghópanna og hún hefði ekki legið inni um hálfs árs skeið hjá ríkisstjórninni, hjá ráðherrum iðnaðar og umhverfis. Sú biðstaða sem við höfum upplifað í atvinnulífinu á síðastliðnum þremur árum lengist jú um það sem þessu nemur, hvað varðar orkufrekar framkvæmdir, því að allt bíður það niðurstöðu rammaáætlunarinnar.

Vissulega er rétt að vanda það sem lengi skal standa og að það má fullyrða að sú vinna sem var sett í þetta langa, faglega ferli var vönduð. Það má segja að upphaf rammaáætlunar hafi verið á síðustu öld og kannski rétt að geta þess hér að upphafsmenn hennar voru ráðherrar Framsóknarflokksins, þeir komu þessu ferli af stað á sínum tíma. Um það hefur verið nokkuð víðtæk sátt að taka málið úr því umhverfi rifrildis- og upphlaupsorða um hverja einustu framkvæmd sem verið hefur og reyna að setja það inn í þennan ramma.

Nú bregður hins vegar svo við að ríkisstjórnin sem situr og kennir sig við norræna velferð eða kallar sig norræna ríkisstjórn hefur oft á tíðum algjörlega misskilið út á hvað það gengur. Það gengur einmitt út á að reyna að ná sem víðtækastri sátt við sem flesta þannig að á bak við hverja stóra framkvæmd eða stóra þingsályktunartillögu sem hefur víðtæk áhrif langt fram í tímann, eins og þessi hér, séu að lágmarki um 80% þingmanna í þingsal sem væru tilbúnir að taka þátt.

En nei, ríkisstjórnin hefur valið það sem sumir kalla hnefarétt, að reyna að fara í gegn með mál með minnsta mögulega meiri hluta og oft á tíðum hefur hún þurft að reiða sig á stuðning einstakra stjórnarandstöðuþingmanna til að koma málum fram. Þetta mál er eitt af þeim, og af hverju? Jú, vegna þess að þetta verkefni sem átti að vera faglegt hefur breyst í það að verða pólitískt, rammpólitískt. Það kom fram við upphafsumræðuna, fyrri umr., hjá ráðherrum, kannski sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra en að einhverju leyti hjá hæstv. iðnaðarráðherra líka sem lagði málið fram. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að fara yfir það af hverju þetta faglega ferli er orðið pólitískt en það er auðvitað pólitískt vegna þess að það var tekið inn til ráðherra frá faghópunum.

Hvaða faghópar voru þetta? Meira að segja hvað þá varðaði notaði núverandi ríkisstjórn endasprettinn til að spyrna út einum fagmanni sem tekið hafði þátt í vinnunni og hafði væntanlega verið tilnefndur af þáverandi landbúnaðarráðherra í febrúar 2010. Viðkomandi fagmanni, Þorsteini Tómassyni, var spyrnt út og í hans stað var settur framkvæmdastjóri vinstri grænu flokkanna á Norðurlöndum, Björg Eva Erlendsdóttir. Ég þekki hana reyndar ágætlega og hún er hin vænsta manneskja en hefur ekki endilega haft það orð á sér að vera sérstakur fagmaður í umhverfismálum. Hún hefur vissulega gríðarlegan áhuga á umhverfismálum og hefur haft verulega sterkar skoðanir — að minnsta kosti mundu sumir kalla það öfgaskoðanir í umhverfismálum. Þarna er augljóslega verið að setja inn pólitískan liðsmann til að greiða atkvæði á endasprettinum og hæstv. umhverfisráðherra upplýsti það í andsvari við mig, á miðvikudaginn í síðustu viku, að það væri einfaldlega þannig að ráðherrar þyrftu að hafa trúnað og traust þeirra sem þeir tilnefndu í fagnefndir. Það má sem sagt lesa þannig að þar á milli verður að vera pólitískur samhljómur. Það er því augljóst að mjög fljótlega eftir að þessi ríkisstjórn komst til valda hefur þessi vinna orðið sífellt pólitískari og minna fagleg.

Það er auðvitað líka augljóst að hæstv. ráðherrar umhverfis og iðnaðar geta ekki falið sig á bak við anda laganna og bráðabirgðaákvæði og metið þær umsagnir sem komið hafa, tveir ráðherrar. Til þess hafa þeir haft samráðshóp. Ég lagði fram fyrirspurn í haust um skipan samráðshóps um rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða, hvernig sá hópur væri skipaður og hverjir sætu í honum og hvort hann væri skipaður af formlegri ráðherranefnd. Það kom auðvitað í ljós að það voru fyrst og fremst starfsmenn ráðuneytanna og trúnaðarmenn ráðherranna sem sátu í þeim hóp og einnig var haft samráð við formenn faghópanna. Svarinu við fyrirspurninni lýkur með því að sagt er að eftir að umsagnarferlinu lauk 11. nóvember síðastliðinn, hafi iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra haft samráð við ýmsa fagaðila sem og þingmenn stjórnarflokkanna við lokafrágang þingsályktunartillögunnar. Það er sem sagt augljóst að meiningin var ekki að ná víðtækri sátt við stjórnarandstöðuna. Þetta er pólitískt plagg núverandi ríkisstjórnar.

Nú getur maður spurt að því, og ég vil spyrja hæstvirta ráðherra ef þeir eru hér til staðar og heyra til mín, ég sé að hæstv. iðnaðarráðherra er hér: Er eitthvað að því eða er það ekki í það minnsta jafnlýðræðislegt, ef ekki talsvert lýðræðislegra, að níu kjörnir fulltrúar, þingmenn í atvinnuveganefnd, fari líka yfir þessar umsagnir og taki afstöðu? Það gæti orðið til nýr meiri hluti, ný skoðun á því hvað sé rétt að leggja fram í þinginu sem lokaafurð þessarar þingsályktunartillögu. Það hlýtur að vera þannig.

Þegar við skoðum þingsályktunartillöguna í heild og lítum yfir þá umræðu sem verið hefur síðastliðin tvö, þrjú ár, er mjög sérkennilegt að nánast öllum vatnsaflsvirkjunum er hent út úr tillögunni en þær virkjanir sem eru þó áfram í nýtingarflokki eru jarðvarmavirkjanir. Af hverju segi ég sérkennilegt? Vegna þess að á síðustu árum hefur mönnum orðið ljóst að meiri óvissa er um jarðvarmavirkjanirnar. Það er meiri óvissa um að ná í þá orku sem fyrir er og hvort hún sé fyrir hendi, hvort við séum að nýta hana of hratt. Nefna má ýmsa fylgikvilla og ókosti sem fylgja virkjun jarðvarma þar sem við nýtum kannski ekki orkuna með nægilega góðum hætti ef við getum ekki nýtt heita vatnið samtímis. Það er því mjög sérkennilegt að ríkisstjórn sem leggur sérstaka áherslu á umhverfisvernd, leggur í nafni umhverfisverndar meiri áherslu á jarðvarmavirkjanir en hendir nánast öllum vatnsaflsvirkjunum út sem við höfum áratugareynslu af og þekkjum orðið mætavel að hafa ekki slíka fylgiókosti og sumar af jarðvarmavirkjununum.

Það kom fram í umræðunni hjá ráðherrunum að hér væri sérstaklega lagt til grundvallar varúðarsjónarmið gagnvart umhverfinu. Ég spyr: Nú hefur verið talsvert mikið atvinnuleysi í landinu, 7,5% atvinnuleysi, þúsundir heimila eru ofurskuldsett og fjöldi fólks hefur flutt úr landi. Við horfum upp á hagkvæma virkjunarkosti í Norðlingaöldu og í neðri hluta Þjórsár, hvort sem það eru tveir eða þrír virkjunarkostir — er ekkert varúðarsjónarmið sem skynsamlegt væri að horfa til með tilliti til fólksins í landinu, að fólk hafi atvinnu og möguleika á að skapa sér og sínu fólki lífsviðurværi? Á eitt varúðarsjónarmið í umhverfisvernd að ýta öllu öðru til hliðar, meira að segja hagkvæmum virkjunarkosti eins og Norðlingaöldu, sem er kannski sá virkjunarkostur sem hefur minnst umhverfisleg áhrif?

Þá eru einnig þær tvær virkjanir af þessum þremur í neðri hluta Þjórsár sem ég hef reyndar ekki tíma til þess að koma inn á núna, frú forseti. Ég ætla að bæta einu við að lokum. Ég nefndi það í stuttu andsvari við hæstv. umhverfisráðherra, vegna þess að verið er að færa svo mikið af virkjunum úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, ekki síst vatnsaflsvirkjunum, hvort ekki væri skynsamlegt að leggja til nýjan biðflokk, nýtingarflokk í bið. Fjárfestar vilja ekki setja pening í eitthvað sem er geymsluflokkur og enginn veit hvað af verður. Hafa menn skoðað það og væri ekki einnar messu virði að skoða hvort skynsamlegt væri að búa til einn biðflokk til viðbótar, nýtingarflokk í bið? Þá væri að minnsta kosti hægt (Forseti hringir.) að hefja þær rannsóknir sem þarf og fá til þeirra fjármagn.