140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum ekki búin að ljúka fyrri umr. um þetta gríðarlega stóra mál. Málið á síðan að fara inn í atvinnuveganefnd sem er búin að hafa síðan fyrir páska í höndunum breytingar á stjórn fiskveiða. Þetta eru gríðarlega stór og umfangsmikil mál sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sagst leggja mikla áherslu á þó að þau komi núna fyrst fram, undir lok kjörtímabilsins. Það verður gríðarleg vinna að fara í gegnum þetta og ég gef lítið fyrir þær útskýringar hæstvirtra ráðherra fyrir helgi að þetta væri andi laganna og að það væri bráðabirgðaákvæði sem gerði það að verkum að þetta hefði verið eina löglega færa leiðin með málið.

Ég kom inn á það í minni ræðu og veit að hv. þingmaður gerði það einnig að nefndin sem er skipuð níu kjörnum fulltrúum fær þetta mál til skoðunar. Ef við horfum á lýðræðishlutann, hvort það er faglegt eða pólitískt mat, held ég að það væri miklu eðlilegra að sú nefnd sem á að fjalla um málið og hefur sett sig faglega inn í það og fengið til sín gesti hefði farið yfir það. Það væri eðlilegra og við þurfum þá að gera þær breytingar á lögunum ef það er ekki hægt í dag að þetta verði þannig í framkvæmd í framtíðinni. Nefndin er þó mun breiðara skipuð en tveir ráðherrar úr ríkisstjórn, hvort sem það er ríkisstjórn eins, tveggja eða þriggja flokka. Það er miklu meiri pólitískur svipur á niðurstöðu slíks hóps, tveggja ráðherra, en ef þingið hefði farið yfir það. Það eru þá fleiri aðilar sem koma að því og það er opnara ferli.

Ég held að niðurstaðan hefði orðið (Forseti hringir.) miklu skynsamlegri, en verkefnið er ærið sem við erum að fara af stað í.