140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að svara seinni spurningu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Auðvitað er það svo að yfir þær umsagnir sem menn fengu í þessu lögformlega ferli á að fara gaumgæfilega og skilmerkilega og taka mið af því sem þar er sagt. Þá getur maður spurt, af því að við vorum hér í andsvörum rétt fyrr að ræða um Hagavatnsvirkjun, og það kom fram hér í umræðum við ráðherrana síðastliðinn miðvikudag að þær hefðu, sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra, hlustað eftir almannasjónarmiðum: Af hverju var ekki hlustað á almannasjónarmið sveitarfélagsins Bláskógabyggðar sem hefur sagt í gegnum nokkrar kosningar þar sem þetta mál hefur verið til umfjöllunar, og allir flokkar þar voru sammála um og þar af leiðandi allir íbúar, að þetta sé skynsamleg leið? Af hverju var ekki hlustað á allar jákvæðar umsagnir landeigenda, Landgræðslunnar, ferðaþjónustunnar á þessu svæði varðandi þennan kost? Það virðist nefnilega vera þannig að ráðherrarnir hafi valið sér umsagnir (Gripið fram í.) og farið eftir þeim en ekki tekið allar umsagnirnar og metið þær. Nú skal ég viðurkenna að ég hef ekki skoðað þær allar 224 eða hvað þær voru sem komu fram, ég hef ekki lesið þær allar.

Varðandi hitt atriðið, hvort hér hafi orðið tjón vegna tíma og tjón hjá samfélaginu. Já, það hefur orðið tjón vegna þess að rammaáætlun hefur dregist. Í rammaáætluninni eru líka verkefni sem við erum sammála um meira og minna og eru í nýtingarflokki en hafa ekki verið afgreidd og þá hefur ekki verið hægt að bjóða þau verkefni út af því að þau eru ekki frágengin frá hendi rammaáætlunar.

Það hefur líka verið erfitt að fá fjármagn vegna þess að það er óljóst hvar einstök atriði lenda. Þess vegna talaði ég um það í ræðu minni hvort við hefðum ekki átt að búa til einn flokkinn enn, nýtingarflokk í bið, sem gæfi þá tilefni eða það væri þá búið að gefa svona „hint“ um að menn væru jákvæðir á nýtingu ef rannsóknarniðurstöður leyfðu að farið væri í þann kost.