140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eins og hv. þingmaður segir mikil hætta á því að þessi rammaáætlun, ef hún verður samþykkt eins og hún liggur núna fyrir þinginu, lifi ekki núverandi ríkisstjórn. Ég get fyrir mitt leyti fullvissað hv. þingmann um það. Við ræddum það fyrir helgi þegar þetta mál var til umræðu.

Við höfum heyrt þær sögusagnir hér á göngunum að engu megi breyta í þessari áætlun vegna þess að stjórnarflokkarnir séu búnir að ná saman og ef hróflað verði við einu fari öll hringekjan af stað og þá verði ekki lengur meiri hluti fyrir henni. Ég leyfi mér að efast um að það sé raunverulegur meiri hluti fyrir þessu máli eins og það er núna.

Ætlar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi? Ætlar hæstv. fjármálaráðherra Oddný G. Harðardóttir, sem er líka þingmaður Suðurkjördæmis, að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi?

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þetta verði samþykkt eins og það er. Ef það verður leyfi ég mér að fullyrða og taka undir með forstjóra Landsvirkjunar sem lét það álit sitt í ljós að verði þetta samþykkt óbreytt muni það ekki lifa ríkisstjórnina.