140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:29]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og kemur engum á óvart að ég er á móti virkjunum í Þjórsá. Mér hefur líka verið gríðarlega umhugað um og barist fyrir því að hlífa hálendinu við frekari virkjunum. Mér þykir það vera mikil mistök og mér finnst það mjög röng niðurstaða ef allar þessar virkjanir á Reykjanesskaganum verða að veruleika. Það finnst mér í rauninni einna alvarlegast við þá tillögu sem hér er lögð fram, hvernig farið er fram gagnvart þessu stórbrotna svæði sem við eigum á Reykjanesskaganum.

En það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef sannarlega ekki legið á skoðunum mínum í þessu máli frekar en aðrir þingmenn, eins og rétt er að við gerum.

Það vill hins vegar þannig til að ég skrifaði ekki þær 225 umsagnir um málið sem komu inn. Ég hef ekki skrifað þann fjölda umsagna, þann fjölda álita sem til dæmis vísindamenn hafa sent inn og varað við ósjálfbærri nýtingu háhitasvæða o.s.frv.

Tvær, þrjár spurningar til hv. þingmanns. Hvað er það sem hefur tafið Búðarhálsvirkjun? Getur hv. þingmaður skýrt það út fyrir mér hvað hefur tafið þar?

Er hún sammála mér í því að stjórnendur Landsvirkjunar hafi brennt sig illilega á þeirri aðferð að selja orkuna áður en samið er um raforkuverð, að það sé ekki leiðin fram á við?

Varðandi pólitík og fagmennsku hef ég sömu spurningu til hennar og ég hef spurt hér áður. Telur hún að það hefði verið hin faglega niðurstaða — vegna þess að þingmönnum er tíðrætt um fagmennsku og pólitísk afskipti af málinu — ef endanleg niðurstaða verkefnisstjórnar, eða þess hóps innan verkefnisstjórnar sem raðaði þessum kostum og flokkaði, hefði verði látin standa? Er það hin faglega niðurstaða, skil ég það rétt?

Svo vil ég víkja að skipulagsmálum í næsta andsvari mínu.