140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, með öðrum orðum rammaáætlun. Ég hef lengi beðið eftir þessari áætlun. Ég var mjög hlynntur því þegar hún var sett á laggirnar. Ég tel mjög brýnt að um það náist sátt hvað við viljum virkja og hvað við viljum ekki virkja, hvað við viljum vernda og hvernig að því er staðið þannig að við getum farið beint og óhikað í að virkja það sem við viljum virkja og vernda hitt sem við viljum ekki virkja.

Ég var í sveit sem drengur hjá Stefáni Þorlákssyni, bónda í Arnardrangi í Landbroti, og lærði heilmikið af honum, margt skynsamlegt og hagnýtt. Þar á bæ var bæjarvirkjun, enda var það þekkt í Skaftafellssýslu að margir bæjarlækir væru virkjaðir, og ég uppgötvaði þá að sérhvert tonn af vatni sem rennur ónýtt til sjávar er tapað. Það kemur aldrei, aldrei aftur og það nýtist ekki komandi kynslóðum og það nýtist ekki núlifandi kynslóðum. Þess vegna er mjög brýnt að vinda sér með hraði í þær virkjanir, a.m.k. vatnsaflsvirkjanir, sem við teljum að við ættum að virkja vegna þess að virkjanir til dæmis við Þjórsá, þær elstu, eða við Sogið eru löngu afskrifaðar og þær mala bara gull, mala gull á hverri einustu mínútu allan sólarhringinn. Þessar virkjanir mala gull ofan í jörðinni og eru þjóðinni til hagsbóta.

Það orðalag, eins og kom fram í umræðunni á fyrra fundi, að við ættum að eftirláta komandi kynslóðum að virkja, er mótsögn. Vegna þess að ef við virkjum núna þurfa komandi kynslóðir ekki að virkja, þá njóta þær bara ávaxtanna af þeirri orku sem er núna að streyma fram af fjallsbrúninni ónýtt.

Þetta tengist atvinnu, þetta tengist fjármögnun og þetta tengist mjög mörgum þáttum, m.a. brottflutningi fólks frá landi eins og hér hefur verið nefnt. Ég ætla ekki að fara meira út í það af því að ég ætla að taka allt annan vinkil á málið.

Ég horfði á mynd í ríkissjónvarpinu um pólasvæðin. Þar er ísinn að bráðna. Af hverju skyldi hann bráðna? Það er vegna þess að heimurinn er að hitna. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Þetta er ekki vandamál pólanna eða vandamál Íslands eða eitthvað slíkt, þetta er alþjóðlegt vandamál sem allar þjóðir þurfa sameiginlega að mæta.

Hvað gerum við Íslendingar? Hvað gerum við Íslendingar, frú forseti? Við virkjum ekki hreina orku, sem ekki er vanþörf á í heiminum. Sumir segja í yfirlæti: Ja, það munar ekkert um það sem við virkjum hér á Íslandi. Við erum svo lítil að við getum geymt okkar hreinu orku til framtíðar og þurfum ekki að leggja neitt fram til þess að minnka mengun á jörðinni. Ég mótmæli þessu. Ef allir hugsuðu svona um heiminn — því að allar virkjanir eru litlar á heimsmælikvarða, hver einasta virkjun í heiminum er lítil á heimsmælikvarða og hefur ekkert að segja með heilu myndina — þá mundi aldrei takast að vinna á hitnun jarðar.

Spurningin er því sú: Hver vill ekki virkja? Og hver vill ekki nýta þessa hreinu orku á Íslandi? Ég er nærri viss um að eftir örfá ár munu umhverfisverndarsamtök heimsins krefjast þess af Íslendingum að þeir virki allt það sem menn telja skynsamlegt að virkja án þess að ganga á náttúruna. Það er einmitt það sem við ræðum hér í dag, þ.e. hvað við ætlum að ganga langt í því að virkja án þess að ganga á náttúruna.

Hér hefur verið rætt um mun á vatnsafli og jarðvarma. Það er hárrétt sem bent hefur verið á að nýting í jarðvarma er fáránlega lítil, 25–30%, á meðan hún er yfir 90–95% í vatnsorku. Þess vegna borgar það sig mjög víða í Evrópu að vatni er dælt upp á nóttunni og niður á daginn. Þá eru fjöllin notuð sem eins konar rafgeymar eða orkugeymar. Það er mjög mikilvægt að allt mannkynið taki höndum saman og vinni gegn því að verið sé að menga og brenna olíu og kolum til skaða fyrir jörðina. Það er nefnilega þannig að á sama tíma og við erum að deila hér um þetta — búið er að taka sex virkjanir út úr rammaáætlun, vatnsaflsvirkjanir að mestu leyti — þá er á sama tíma verið að reisa, ég held eitt álver á viku í Kína. Hvaða orku skyldu þau nota? Jú, verið er að brenna heilu fjöllunum af kolum. Þar er flutt inn olía og gas til að framleiða rafmagn sem er nauðsynlegt við framleiðslu á áli.

Við erum því ekki sjálfum okkur samkvæm. Íslenskir náttúruverndarsinnar eru ekki sjálfum sér samkvæmir. (Gripið fram í.) Þeir ættu að ýta á það að hér verði virkjað eins mikið af hreinni orku í þágu mannkynsins og hægt er, eins og við teljum forsvaranlegt gagnvart náttúrunni.

Ég ætla að ræða aðeins um strenginn því að mikill misskilningur er kominn upp um hann.

Íslendingar eru að selja mat og orku. Það er tvennt sem við seljum eða flytjum út, fyrir utan þjónustu fyrir ferðamenn. Þetta eru meginatvinnugreinarnar. Þess vegna eigum við að gleðjast, frú forseti, þegar orkuverð hækkar. Þegar bensínverð og olíuverð hækkar eigum við að gleðjast því að þá hækkar orkuverð og til framtíðar er það gott fyrir Ísland. Sömuleiðis með matvælaverð, þegar það hækkar þá hækkar verðið á hinni aðalútflutningsgreininni okkar, þ.e. fiskinum, sem er matvæli. Framtíðin er því í sjálfu sér mjög björt fyrir Ísland.

Ef við gætum flutt út þessa orku mundi verðið á henni hækka. Þá segja sumir: En þá hækkar raforkan á Íslandi til heimilisnota. Það er hárrétt, en við notum ekki nema örlítið brot af þeirri orku sem við framleiðum eða því sem við gætum framleitt.

Það er því okkur til hagsbóta að hækka verð á raforku. Og jafnvel þó að það mundi lenda á heimilunum er það svo lítill hluti að við fengjum hitt í formi skatttekna og beinna arðgreiðslna vegna þess að ríkið á Landsvirkjun, Rarik og fleiri orkuver. Það er okkur til hagsbóta að orkuverðið hækki og strengur mundi einmitt hækka orkuverð.

Hann gerir meira, frú forseti. Hann leiðir til betri nýtingar á uppistöðulónum virkjananna. Nú erum við að upplifa það að lónin eru að fyllast, í byrjun sumars. Það mun flæða heilmikið yfir þau í sumar vegna þess að virkjanirnar ná ekki að nýta alla orkuna. Ef við hefðum streng gætum við aukið nýtingu orkuveranna sennilega um 10, 15 eða 20%. Og ef við gætum tekið áhættuna af því að þau mættu tæmast öðru hverju með því að flytja orku til landsins í gegnum þennan sama streng. Strengur mundi því auka nýtingu á orkuverum sem við hefðum þegar byggt. Hann veldur engri umhverfismengun, ekki neinni, þannig að það er bara jákvætt að hafa streng sem gerir okkur kleift að nýta orkuverin betur og flytja orku til landsins.

Ég vona að sú tillaga sem við ræðum verði afgreidd hérna og að þær virkjanir sem teknar voru út verði settar aftur inn í meðförum þingsins. Ég minni á að það er stórhættulegt þegar maður fer að blanda pólitík inn í faglega vinnu.

Ef einhver hefur fengið í gegn með þrýstingi — vegna þess að ríkisstjórnin stendur veikt — einkahugðarefni sín um að virkja ekki neitt þá væri hægt að gera nákvæmlega það sama á hinn veginn, frú forseti. Þegar komast til valda menn sem vilja virkja, þá gætu þeir bent á það og sagt: Ja, einu sinni var nú farið fram hjá þessu faglega mati. Og þá kann að vera að menn muni virkja fullmikið. Það yrði skaðlegt fyrir náttúruna.

Ég vara við því að menn víki af hinni faglegu braut sem allt ferlið var í. Mér finnst að Alþingi ætti að íhuga þá ákvörðun um að taka þessar sex virkjanir út. Ég held að sé mjög hættulegt fyrir náttúru Íslands þegar menn víkja frá hinni faglegu braut. Ef menn víkja í þá átt að virkja minna geta menn vikið seinna í hina áttina, þ.e. að virkja meira og jafnvel taka eitthvað af virkjunum sem eru þegar í verndarflokki og fara að nýta þær.