140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:53]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er mikilvæg hugsun sem þarna kemur fram í svörum hv. þingmanns, þ.e. hann telur að það eigi að láta Gullfoss í friði. Væntanlega er þjóðarsátt um það. En getur hann þá séð fyrir sér að í framtíðinni, eftir nokkrar kynslóðir, jafnvel bara eina, líti fólk til baka á einhver svæði sem við kunnum núna ekki að meta og segi: Guð minn góður, hvernig gat fólki dottið í hug að ætla að eyðileggja þessi svæði? Það gerum við núna þegar við horfum til baka og segjum: Guð minn góður, hvernig gat fólki dottið í hug að ætla að eyðileggja Gullfoss?

Verðum við ekki að hafa þessa auðmjúku sýn á okkar eigin rörsýn í þessum efnum?

Ég er reyndar ósammála hv. þingmanni um að hér muni koma gríðarlegur þrýstingur frá umhverfissamtökum um að eyðileggja landið okkar. En er þá ekki hv. þingmaður sammála mér um það, ef svo fer, að einmitt við eigum þá að standa vaktina um ábyrga nýtingu og ábyrga vernd þeirra svæða sem til langrar framtíðar kunna að nýtast komandi kynslóðum mun betur með öðrum hætti?

Þá komum við að annarri spurningu um rörsýn okkar kynslóðar. Árið 1997 var heildarraforkunotkun í landinu tæpar 6 teravattstundir á ári. Nú, aðeins 14 árum síðan, er hún 17 teravattstundir og verður væntanlega um 18 með Búðarhálsvirkjun. Það er lítið eftir. Þingmenn tala oft eins og það sé óendanleg orka í landinu. Hún er mjög takmörkuð. Margir af hagkvæmustu kostunum hafa þegar verið nýttir. Er það þá ekki fyrsta skref ábyrgðar að fara fram af varkárni, eyða ekki því sem eftir er, að við hér og nú tökum til allrar framtíðar ákvörðun um að svo og svo mikið eigi að tæma nú þegar, á stundinni? Er ekki hv. þm. Pétur Blöndal, sem ég veit að metur framsýni, sammála mér um að þegar um svo (Forseti hringir.) takmarkaða auðlind er að ræða og takmarkaðar teravattstundir eftir hljóti að vera skylda okkar að fara fram af varkárni (Forseti hringir.) fremur en offorsi?