140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að við erum ekki að takast á við þessi mál frá upphafsreit. Ég verð að játa það að mig skortir þekkingu og vit til að geta nefnt í tölum eða prósentum hvar hið gullna jafnvægi liggur. Ég held hins vegar að við þurfum að takast á við þessi viðfangsefni þannig að við vegum og metum sjónarmið og við þurfum hugsanlega að gera það í hverju tilviki fyrir sig og við þurfum auðvitað líka að líta á það heildrænt.

Ég held að við getum gengið lengra en við höfum gert með þeirri nýtingu sem nú er til staðar. Þar með er ég ekki að segja að við eigum alltaf að nýta alla kosti þegar í stað, langt frá því, ég er alls ekki að segja það. Ég held hins vegar að sú niðurstaða sem kom út úr vinnu verkefnisstjórnar hafi verið, eins og ég sagði í ræðu minni, ákveðin tilraun til þess að mynda jafnvægi milli þeirra sjónarmiða sem helst hafa verið uppi í þjóðfélagsumræðunni upp á síðkastið, á síðustu árum og jafnvel áratugum. Þó að ég taki það fram að þar sé ekki um að ræða neinn háheilagan sannleik sem sé hafinn yfir alla gagnrýni þá held ég að í þessu hafi birst ákveðið jafnvægi milli mismunandi sjónarmiða. Það sem ég hef áhyggjur af og lýsti áhyggjum af hér áðan er að jafnvægið hafi raskast við, hvað eigum við að segja? — sumir hafa viljað tala um pólitísk afskipti ráðherranna, en ég vil segja afskipti ráðherranna hvort sem þau eru af pólitískum ástæðum eða einhverjum öðrum. Ég held að jafnvægið hafi raskast, ég held að lóðin hafi færst til á vogarskálunum (Forseti hringir.) og ég held að það hafi afleiðingar fyrir líftíma þessarar áætlunar.