140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þegar spurt er með jafnalmennum hætti og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gerir sé auðvelt að vera sammála henni í flestum efnum. Ég held að það sé alveg rétt að það skorti á rannsóknir á ýmsum sviðum. Ég held að úr því megi bæta. Ég held líka að við séum að taka ákvarðanir í dag á töluvert betri forsendum en gert var fyrir 30 árum, 20 árum, jafnvel 10 árum. Ég held að okkur fari fram í ýmsu þannig að ekki er nú allt svart í þessum efnum.

Ég er líka sammála því að það er mikilvægt að leita jafnvægis, eins og ég hef hér talað fyrir. Við getum yfirfært þá hugsun á alla mögulega þætti í þessu sambandi, en það sem ég er fyrst og fremst að tala um er að þegar lagt var af stað með þá vinnu sem liggur til grundvallar hér í dag var meðvitað og yfirlýst stefna að horfa til nýtingarkosta en eins til verndargildis. Vinnan mótaðist af þessum þáttum. Ég held að sú niðurstaða sem kom út úr vinnu verkefnisstjórnar hafi verið ágæt, ekki fullkomin en ágæt, og þegar búið er að vinna þessa pólitísku vinnu eða stefnumótunarvinnu á vegum ráðuneytanna, sem mér virðist að hafi að töluverðu leyti falist í því að tryggja málinu stuðning í þingflokkum stjórnarflokkanna, finnst mér hallinn vera orðinn dálítill í þessu sambandi (Forseti hringir.) og þess vegna geri ég ekki ráð fyrir því að þessi áætlun muni (Forseti hringir.) eiga jafnlanga lífdaga og ella hefði getað orðið.