140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér eitt mikilvægasta málið sem er til umfjöllunar á þessu vorþingi, þ.e. tillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eins og fram hefur komið í umræðunni og ég fór yfir í fyrri ræðu minni hefur lengi verið unnið að þessu verkefni og var vinna við það sett af stað til að reyna að fá fram faglega niðurstöðu um hvaða kosti við ættum besta varðandi annars vegar virkjanir, þ.e. nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem hér um ræðir, og hins vegar verndun þessara svæða.

Verkefnisstjórn um rammaáætlun skilaði af sér röðun þeirra kosta sem hún hafði til skoðunar, byggði upp ítarlega aðferðafræði sem tók talsverðan tíma að búa til, og auðvitað má alltaf deila um aðferðafræðina, en hins vegar kom niðurstaða úr vinnunni. Röðunin frá verkefnisstjórn byggir á ítarlegri vinnu, þróaðri aðferðafræði og gögnum frá helstu sérfræðingum okkar og stofnunum. Ég ítreka að með því að setja málið í þennan farveg var reynt að ná fram einhvers konar málamiðlun, þ.e. leið sem gæti verið til þess fallin að skapa sátt milli ólíkra sjónarmiða. Nú þegar niðurstaðan liggur fyrir þurfa stjórnmálamenn að vanda sig. Þingmenn og pólitíkusar úr nánast öllum flokkum hafa tjáð sig á fyrri stigum málsins, á vinnslutíma rammaáætlunarverkefnisins, um hversu mikilvægt sé að ná fram niðurstöðu og reyna að skapa sátt í þessum mikilvæga málaflokki. Ef menn ætla síðan að færa til kosti, sem verkefnisstjórnin álítur vera vænlega til virkjana, yfir í aðra flokkun, eins og gert er í þingsályktunartillögunni, þarf að vanda sig mjög við það og rökstyðja það ítarlega. Ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum að sú er ekki raunin varðandi þá kosti sem færa á til, þ.e. virkjunarkostina í Þjórsá og eins Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir.

Það hefur talsvert verið talað um í dag miklar öfgar í umræðunni og það var auðvitað þannig og ég vona að við ætlum okkur ekki að fara í þann farveg hér í þinginu og í nefndastörfunum sem fram undan eru. Ég minni á að hér eru fjölmargir kostir sem lagt er til að fari í verndarflokk, svo eru allnokkrir kostir sem fara í biðflokk þar sem bent er á að þurfi frekari rannsókna við, og síðan fara þó nokkrir kostir í nýtingarflokk. Auðvitað er erfitt að horfast í augu við það þegar maður hefur skoðun á þessum málum, í hvora áttina sem er, og komin er niðurstaða. Ekki eru allir sáttir við allt, maður fær ekki alltaf allt sem maður vill. En af því að málið var sett í þennan farveg í upphafi og menn hljóta að hafa áttað sig á því að það kæmi niðurstaða á endanum frá verkefnisstjórninni verða þeir að reyna að sætta sig á þá niðurstöðu. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að ráðherrar hafa fært til kosti að mínu mati án þess að nægjanleg rök liggi þar að baki.

Varðandi virkjanirnar í neðri Þjórsá hafa þær raðast ofarlega í nýtingarflokki, bæði í rammaáætlun 1 og rammaáætlun 2, það liggur fyrir, og liggur ógrynni rannsókna fyrir varðandi fiskstofna í Þjórsá. Menn geta bara gúglað það og þá fá þeir upp heillangan lista. Að sjálfsögðu var farið yfir þessi atriði af faghópi 2 í verkefnisstjórninni þannig að þetta lá fyrir. Auðvitað er alltaf hægt að rannsaka hlutina betur og í raun er hægt að rannsaka hlutina endalaust, en á meðan er því frestað að taka ákvarðanir og komast að niðurstöðu og þar með að standa við þá verkáætlun sem ákveðin var í upphafi þegar ráðist var í að vinna að rammaáætlun.