140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur fjallað um þetta mál í að minnsta kosti tveimur ræðum sem ég hef fylgst með. Er hv. þingmanni tíðrætt um faglega þætti verksins, þ.e. mikilvægi þess að byggja þessar tillögur á faglegri vinnu og sleppa pólitískum inngripum í það, eins og hv. þingmaður og fleiri þingmenn úr stjórnarandstöðunni hafa reyndar fjallað ítrekað um í ræðum sínum.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir átti sæti í verkefnisstjórn rammaáætlunar. Hún var skipuð í stjórnina af þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, ef ég man rétt, og ég held að núverandi forsætisráðherra hafi haldið þeirri skipun óbreyttri. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi litið á skipun sína í verkefnisstjórnina sem faglega skipun. Var hv. þingmaður í stjórninni sem fagmaður eða sat hún þar sem pólitískur fulltrúi forsætisráðherra? Hvort var það frekar? Ef hv. þingmaður hefur verið skipuð sem stjórnmálamaður í þennan hóp hlýtur hún þar að hafa sett einhver pólitísk fingraför á það verk sem hópurinn skilaði, sem mér skilst ekki talið vera til fyrirmyndar að gera í þessu máli. Ég vil sömuleiðis spyrja hvort hv. þingmaður hafi verið sátt við niðurstöðu starfshópsins eins og hún var lögð fram á sínum tíma.