140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að hafa það alveg á hreinu er ég ekki að bera það upp á hv. þingmann að hér ekki hafi verið um faglega vinnu að ræða. Ég lít þannig á að hún hafi verið skipuð í þennan hóp sem sveitarstjórnarmaður og lögfræðingur og haldið því áfram eftir að hún varð þingmaður, en ég átta mig samt ekki á því hver hvert hennar sérstaka fag var í þessum hópi. Hafði starf hv. þingmanns eftir að hún var ekki lengur sveitarstjórnarmaður heldur þingmaður einhver áhrif á störf hennar í hópnum, þ.e. hvað stjórnmál og pólitískar áherslur varðar? Ég ítreka spurningu mína um hvort hv. þingmaður hafi verið sátt við niðurstöður verkefnisins og ég heyri að hún ætlar að svara henni á eftir.

Samkvæmt því sem fram hefur komið bæði í frumvarpinu og í umfjöllunum þess var á grundvelli þeirra tillagna sem verkefnisstjórnin lagði fram farið í ákveðna vinnu við að gera þær tillögur þingtækar, þ.e. að búa til þingsályktunartillögu úr því, jafnframt því að leita leiða og að leggjast í frekari skoðun á því hvort gera þurfi að einhverjar breytingar á tillögum til að uppfylla lagalegar kvaðir þessa máls, samkvæmt lögum nr. 48/2011. Ef ég skil tillöguna rétt og þær tillögur sem þar koma fram eru einu breytingarnar sem gerðar hafa verið á málinu hugsaðar til að uppfylla lagaákvæði frá því að verkefnishópurinn skilaði niðurstöðum sínum.

Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar, þá sem lögfræðingur, að það hafi verið ófaglega gert að laga tillögurnar, búa þær í þingtækt form og laga þær til (Forseti hringir.) að þær uppfylltu lög, í þessu tilfelli (Forseti hringir.) lög nr. 48/2011, sem varða málið?