140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:37]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er mikið umhugsunarefni hvað vantar gríðarlega mikið, þrátt fyrir þær framfarir sem við sjáum og okkur ber að þakka, inn í rannsóknir okkar á náttúrufræði, landslagi og ýmsum öðrum þáttum. Faghópur 2 segir sjálfur að mikilvægi lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar hafi líklega verið vanmetið, svo dæmi sé nefnt. Bent er á ýmsar gloppur og ýmislegt sem hægt hefði verið að nýta tímann í, til dæmis að gera þær ítarlegu rannsóknir sem þörf er á að gera áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir. Mér finnst að þingheimur allur eigi virkilega að hugsa um það, til dæmis það mikla ójafnvægi sem verið hefur á milli rannsókna orkugeirans og rannsókna á þeim gríðarlega mikilvægu þáttum og gildum sem felast í að nýta náttúruna með öðrum hætti en virkjunum, meðal annars með vernd, sem er ákveðin nýting.

Hv. þingmaður nefnir hið mikilvæga hugtak sjálfbæra þróun. Ein grunnstoð sjálfbærrar þróunar er að sjálfsögðu samfélag og áhrif samfélagsins. Er hv. þingmaður sátt við útkomu og það sem fyrir liggur varðandi samfélagsáhrif virkjana, þ.e. niðurstöður faghóps 3? Ég verð að segja að þar vantar mjög mikið upp á þróun aðferðafræðinnar og hvernig við lærum að meta þá grunnstoð í sjálfbærri þróun sem heitir (Forseti hringir.) áhrif á samfélag og fólk.