140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:52]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu ræðu og ég er hjartanlega sammála honum í öllum meginatriðum, í bara öllu sem hann hafði að segja. Ég held reyndar að hann hafi mismælt sig og sagt að það ættu fleiri kostir að fara í nýtingarflokk en meinti verndunarflokk, nema að mér hafi misheyrst.

En ég er svo hjartanlega sammála hv. þingmanni um háhitasvæðin og hversu hart og með hversu óábyrgum hætti við höfum gengið þar fram og ætlum okkur að óbreyttu að ganga fram. Hann tiltók nákvæmlega svæðin á Reykjanesskaga sem eru svo dýrmæt og einstök, og Reykjanesskaginn er náttúrlega einstakur á heimsvísu í jarðfræðilegu tilliti og í mörgu tilliti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann vissi um einhvern stað í heiminum þar sem rétt við alþjóðaflugvöll og í faðmi höfuðborgarlands er ósnortið víðerni eins og við eigum og er á Reykjanesskaga. Faghópur 2 hefur bent á og viðurkennt að náttúruverðmæti og svæði í nágrenni höfuðborgarinnar séu vanmetin. Veit hann um nákvæmlega slík svæði í svona samhengi þar sem er alþjóðaflugvöllur og höfuðborg, og er hann sammála mér um að Reykjanesskaginn sé á margan hátt vannýtt auðlind? Allir ferðamenn sem fara þangað eru stórkostlega ánægðir og það væri hægt að búa til hinn nýja gullna hring sem væri Reykjanesskaginn, stórkostlegar gönguleiðir o.s.frv.

Svo í lokin, hvað segir hv. þingmaður sem hagfræðingur um það hvernig við höfum gengið fram með nýtingu á okkar verðmætu orku?